Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 14:31:26 (6073)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:31]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í upphafi geta eins sem ég gleymdi að koma inn á í framsögu minni en það var að þakka nefndarmönnum í félagsmálanefnd fyrir samstarfið í þessu máli. Það gekk vel og greiðlega að vinna það í nefndinni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir fyrirvörum sínum við þetta mál. Í fyrsta lagi er það atriði sem varðar bolmagn Vinnumálastofnunar til að fást við verkefnið. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns og ég held að við öll sem í nefndinni sitjum höfum gert það. Það kom skýrt í ljós, eins og t.d. í umsögn félagsmálanefndar í fjárlagavinnunni, að við lögðum mikla áherslu á að Vinnumálastofnun fengi aukið fjármagn.

Það kom hins vegar fram hjá forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissuri Péturssyni, að þeir geta notað margt úr þeirri vinnu sem þeir fóru í þegar þeir á sínum tíma innleiddu starfsmannalögin, sem þeir fengu reyndar ekki mikinn heimanmund með. Þess vegna felst ekki svo mikill nýr kostnaður í þessu. Vissulega mun eftirlitið kosta sitt en hann kom inn á það á fundi nefndarinnar að fyrst þurfi að meta þörfina og kostnaðinn út frá því. Hann taldi því á fundi félagsmálanefndar að Vinnumálastofnun gæti farið í þetta verkefni núna.

Örstutt, virðulegi forseti, varðandi menntun starfsmanna. Það kemur fram í 8. gr. í 2. lið að fyrirtæki eigi að gefa upplýsingar um starfsréttindi og Vinnumálastofnun getur þá miðlað upplýsingum til verkalýðsfélaga í einstökum málum. Ég tel líka, og ég hef aðeins verið að hugsa um þetta atriði vegna þess að það hefur verið mikið til umræðu í nefndinni, að kannski sé möguleiki á því í framtíðinni að þessir aðilar semji um hvernig upplýsingagjöf sé háttað. En eins og er er það í þessum farvegi.