Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 14:35:47 (6075)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:35]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi athugasemdir um slysatryggingar og veikindi þá sáum við ástæðu til þess að setja í nefndarálitið ítrekun um að þessar greinar eiga sér fyrirmyndir í ákvæðum laga og kjarasamninga þannig að ég vísa hv. þingmanni á þessa klausu í nefndarálitinu. Við vildum a.m.k. bregðast við athugasemdunum þannig og teljum að þessi réttindi séu tryggð í frumvarpinu, bara svo það komi fram í umræðunni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á stefnu í málefnum innflytjenda og ég veit að margir hafa beðið eftir umræðum um hana. Að því er mér skildist átti að flytja skýrslu um þá stefnu en það hefur ekki komist á dagskrá. Við skulum sjá hvað setur. En við höfum ekki marga daga þannig að vonandi skýrist það mjög fljótlega upp á vinnu við annað mál sem nú er í félagsmálanefnd.