Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 14:37:04 (6076)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda þá er það nú þannig í mínum huga að ég held að það breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut þó að við ræðum þetta mál í einn eða einn og hálfan tíma í skýrsluformi og síðan er málið bara afgreitt af hálfu þingsins.

Þingmenn sem eru hér vanir og þekkja hvernig hlutirnir ganga fyrir sig vita að fyrst og fremst er hægt að ná árangri ef málið fer í þinglega meðferð og hægt er að senda það til umsagnar eða a.m.k. kalla fyrir þá aðila sem til þekkja til þess að geta tekið tillit til þeirra sjónarmiða og sjónarmiða þingmanna varðandi stefnuna.

Ég vona að hv. þm. Dagný Jónsdóttir fylgi mér í því að þetta mál fari í þinglega meðferð í nefnd. Ég vona að þetta sé ekki endanlegt og verði einungis hér í skýrsluformi. Ég spyr: Er það endanlega afgreitt af hálfu stjórnarflokkanna, stjórnarliða, að þetta verði einungis í skýrsluformi? Ég spyr um það vegna þess að mér finnst mikilvægt að fá það fram.

Ef hv. þingmaður beitir sér fyrir því að málið fari til þinglegrar meðferðar og til félagsmálanefndar skal ég vinna hörðum höndum að því með henni að ná því máli fram og stuðla að því að það fái góða umfjöllun í nefndinni. En mér er algerlega misboðið ef afgreiða á málið með þeim hætti að ræða það einungis í formi skýrslu.

Varðandi þau atriði sem ég hafði áhyggjur af hvað Tryggingastofnun áhrærir þá fullyrðir hv. þingmaður að engin vandkvæði séu á því að þau ákvæði sem eru í frumvarpinu komist til framkvæmda þrátt fyrir krítíska umsögn Tryggingastofnunar ríkisins. Ég spyr hana því: (Forseti hringir.) Fullvissaði hún sig um það með því að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins að þeir væru sáttir við þetta eins og þingnefndin gekk frá þessu?