Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 14:39:27 (6077)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Almennt vil ég segja um frumvarpið að ég er bærilega ánægður með það. Það hefur fengið mjög góða umfjöllun í félagsmálanefnd þingsins og vil ég þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, fyrir ágæta verkstjórn.

Það má segja að vandað hafi verið til verka við smíði frumvarpsins. Það byggist á aðkomu margra aðila, þar á meðal aðila á vinnumarkaði, Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk stjórnsýslunnar.

Á Íslandi er drjúgur hluti vinnumarkaðar skipaður fólki sem er aðflutt. Mönnum reiknast til að tíundi hver maður á íslenska vinnumarkaðnum sé aðfluttur. Þar sé á ferðinni erlent vinnuafl sem svo er nefnt. Það fólk hefur komið hingað til lands á mismunandi forsendum eftir mismunandi farvegi, ef svo má að orði komast.

Í fyrsta lagi er um það að ræða að fólk komi hingað á forsendum hins Evrópska efnahagssvæðis, en einn af grunnþáttum þess er að tryggja frjálst flæði vinnuafls. Í annan stað kemur fólk hingað til lands og ræður sig til starfa, fær atvinnuleyfi og iðulega hefur það gerst með milligöngu svokallaðra starfsmannaleigna. Í þriðja lagi er um að ræða að fólk komi hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja sem sinna verkefnum á Íslandi. Það frumvarp sem við höfum hér til umræðu fjallar um réttindi þess fólks.

Menn hafa haft áhyggjur af því á íslenskum vinnumarkaði að fyrirtæki, einkum frá fátækari ríkjum heimsins, flytji inn vinnuafl, flytji inn starfsfólk sem starfi á lakari eða lægri kjörum en almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði. Í því sambandi hefur verið talað um undirboð. Það hefur verið áhyggjuefni, bæði íslenskra fyrirtækja, sem ekki vilja láta undirbjóða sig á óeðlilegum forsendum, og verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur viljað standa vörð um kjör launafólks.

Frumvarpið tryggir að hið sama gildi um þetta fólk og gerist almennt á íslenskum vinnumarkaði. Það sem einkennir íslenska vinnumarkaðinn er að lágmarksréttindi og lágmarkskjör eru lögbundin. Grunnpósturinn í frumvarpinu er að tryggja að erlent launafólk sem kemur hingað til starfa á vegum erlendra fyrirtækja skuli lúta umsömdum lágmarkskjörum á Íslandi og ákvæðum sem snúa að aðbúnaði og hollustu á vinnustað, tryggingum og öðru af því tagi. Það er á þeim forsendum sem ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega.

Þegar þessi lagasmíð var í burðarliðnum fléttaðist umræða um það að nokkru leyti opnun íslenska vinnumarkaðarins. Svo háttaði til að árið 2004 fengu inngöngu í Evrópusambandið tíu ný ríki, sem svo má kalla, einkum frá austanverðri Evrópu. Ríki þar sem atvinnuleysi er mikið og laun eru lág og menn óttuðust að fólk mundi sækja í stríðum straumi vestur á bóginn.

Evrópusambandið ákvað að setja ákvæði sem gilda um hið Evrópska efnahagssvæði þess efnis að gömlu ríkin fengju heimild til þess að takmarka aðflutning launafólks til landsins frá þessum tilteknu ríkjum. Fyrsta takmörkunarskeiðið átti að gilda frá 1. maí 2004 til 1. maí 2006. Íslendingar ákváðu að setja slík ákvæði inn í íslenska löggjöf.

Við stóðum svo frammi fyrir því síðastliðið vor hvort við ættum að framlengja þessa lokun eða opna fyrir flutning fólks frá hinum nýju ríkjum. Niðurstaðan varð sú að ákveðið var að opna en jafnframt yrði sett löggjöf sem heimilaði eftirlit með bæði fyrirtækjum sem hingað væru að koma og starfsfólki frá þessum löndum.

Í stjórnarandstöðunni kom fram tillaga um að framlengja frestinn til síðustu áramóta og bíða þess að sú löggjöf sem við ræðum nú væri orðin að veruleika auk þess sem við vildum einnig fá staðfesta innflytjendastefnu íslenskra stjórnvalda. Það gekk ekki eftir en fáeinum vikum síðar höfum við þetta frumvarp hér, sem eins og ég segi tryggir þessi grunnréttindi.

Ég skil vel þær áhyggjuraddir sem heyrðust frá ýmsum verkalýðsfélögum um að óráðlegt væri að opna áður en öryggisnet yrðu strengd. Ég skil þær áhyggjur. Hins vegar held ég að þegar málið er gert upp hafi þetta verið hyggileg stefna. Það segi ég með hliðsjón af þeirri lagasmíð sem við höfum hér í höndunum.

Hitt er svo annað mál að ég held að menn gleymi sér oft í þessari umræðu og einblíni um of á höftin og girðingarnar og múrana en hirði minna um það sem skiptir að sjálfsögðu mestu máli, þegar við reynum að skilja hvers vegna svo margt fólk kemur hingað í atvinnuleit sem raun ber vitni. Það er að sjálfsögðu ekki út af neinum slíkum reglum. Það er vegna þeirrar þenslu sem á sér stað í íslensku atvinnulífi og geysilegrar eftirspurnar eftir vinnuafli, bæði innlendu og erlendu. Það er ástæða þess að fólk kemur hingað til lands, ekki þær reglur sem gilda um flutninginn til landsins. Því það hefur alltaf verið uppi að fólk hefur getað komið til Íslands í atvinnuleit og fengið hér atvinnuleyfi ef óskað er eftir starfskröftum þess. Þannig að það er hin stóra umræða en ekki þetta.

Ýmis ákvæði í þessum lögum eru góð. Þau heimila Vinnumálastofnun eftirlit og eftirfylgni. Þegar við tölum um eftirlit erum við fyrst og fremst að starfrækja slíkt til þess að tryggja réttindi fólksins. Það er kveðið á um það að fyrirtæki sem hingað kemur skuli, sé það lengur en tiltekinn dagafjölda á ári, allt frá tíu virkum dögum upp í fjórar vikur eftir því hver starfsemin er, tryggja Vinnumálastofnun upplýsingar og það skuli skipa sérstakan talsmann sinn til að annast slíkt.

Við höfum flutt þingmál, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, á undanförnum mánuðum þar sem við höfum viljað að þetta verkefni væri á hendi verkalýðsfélaganna og það væru þau sem hefðu aðgang að upplýsingum og starfsfólki. Við erum enn þeirrar skoðunar að það væri heppilegri ráðstöfun. Þetta er hins vegar niðurstaðan. Fyrirvari okkar við samþykkt frumvarpsins er í reynd fyrst og fremst á grundvelli vel rökstuddra áhyggna yfir því að Vinnumálastofnun og þeim eftirlitsaðilum öðrum sem koma að þessum málum verði ekki tryggðar nægar tekjur til þess að sinna verkefninu sem skyldi.

Það eru mín síðustu orð að sjá þarf til þess að allir þeir eftirlitsaðilar sem koma að þessum málum, hvort sem það er verkalýðshreyfing eða aðilar að vinnumarkaði, og svo að sjálfsögðu Vinnumálastofnun sem ber hitann og þungann af þessu starfi, fái nægilegt fjármagn til þess að gera þessi lög að veruleika þannig að þau verði annað og meira en orðin tóm.