Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:00:37 (6079)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:00]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls, lýsa ánægju minni með frumvarpið. Eins hef ég heyrt að vinnan í hv. félagsmálanefnd hafi gengið vel og lýst er ánægju með starfshætti í nefndinni hvað varðar vinnslu á frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Frumvarpið kemur ekki til af góðu en verið er að bregðast við miklum vanda. Hér hefur sú þróun orðið á undanförnum árum að erlendu vinnuafli hefur fjölgað ár frá ári og er nú orðið 9% af starfsmannafjölda á íslenskum vinnumarkaði. Það er nýtt fyrir okkur að hafa svo hátt hlutfall af erlendum starfsmönnum. Hér hafa sem betur fer alltaf verið erlendir starfsmenn sem hafa hjálpað okkur í tímabundnum verkefnum þar sem vertíðirnar hafa verið okkar helsti álagspunktur í vinnu, en það er að breytast. Eftir sem áður er á fiskverkunarstöðvunum orðinn mikill fjöldi og á sumum stöðvum er meiri hluti starfsmanna erlent vinnuafl. Margir hverjir eru orðnir íslenskir ríkisborgarar og það er allt af hinu góða.

Með þeirri ákvörðun að fara í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál á Reyðarfirði, álfyrirtæki á Reyðarfirði, flæddi inn á vinnumarkaðinn á mjög stuttum tíma mikill fjöldi erlendra verkamanna. Þrátt fyrir að lagt hafi verið upp í þá för með þá áætlun að 20% starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun yrðu af erlendu bergi brotin eða erlent innflutt vinnuafl snerust hlutföllin alveg við og um 80% hafa verið af erlendum uppruna. Erlendu starfsmennirnir hafa bæði komið í gegnum starfsmannaleigur og eins verið ráðnir beint. Það er af samskiptum starfsmanna Starfsgreinafélagsins Afls á Austurlandi við starfsmannaleigurnar — og við það ástand sem skapaðist við þessa miklu framkvæmd og svo stóran hóp erlendra verkamanna inn á svæðið á stuttum tíma þar sem undirbúningur hafði verið lítill sem enginn — að brestir í löggjöf okkar komu greinilega í ljós. Við því er verið að bregðast núna. Betra er seint en aldrei, segi ég, en það er alveg greinilegt á umsögn Starfsgreinafélags Austurlands að það telur að ákvæði þurfi að vera skýrari en fram kemur í frumvarpinu. Ég óska eftir því að til þess verði litið og ef í ljós kemur að Starfsgreinafélagið hefur rétt fyrir sér verði við því brugðist hið fyrsta.

Starfsgreinafélagið er það félag sem hefur hvað mesta og sárasta reynslu af álaginu. Það er alveg ljóst að í byrjun þegar ábendingar komu frá Starfsgreinafélaginu, heilbrigðiseftirlitinu og Vinnueftirlitinu um að pottur væri brotinn, að verið væri að brjóta á erlendum starfsmönnum í launum, kjörum og aðbúnaði, að þá var lítill áhugi á að bregðast við og aðstoða Starfsgreinafélagið eða styrkja Vinnueftirlitið eða heilbrigðiseftirlitið til þess að hægt væri að ganga í þau mál. Það er óeðlilegt að Starfsgreinafélagið þurfi hreinlega að fara í dómsmál til þess að fá fram bætur og réttindi þeirra starfsmanna sem augljóst er að verið er að brjóta á.

Hvað varðar Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið er alveg ljóst að ekki er nóg að hafa rammann, löggjöfina, í lagi ef engin viðurlög eru fyrir hendi sem vinnuveitandinn, hvort sem það er innlend eða erlend starfsmannaleiga eða hver sem er, ber virðingu fyrir og veit að verður beitt. Það er út af þessu sem hægt er að brjóta á erlenda vinnuaflinu, bæði hvað kjör og aðbúnað snertir, að hinar opinberu stofnanir sem eiga að hafa eftirlit ef verið er að brjóta á starfsmönnum hafa ekki vopn á hendi til þess að stöðva og láta fyrirtækið lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Þetta er mjög alvarlegt mál og í frumvarpinu er einmitt bent á það að það er ekki nægilega skýrt hvaða tæki verkalýðsfélögin, Vinnumálastofnun eða aðrir opinberir aðilar hafa til þess að ganga í málin og fá þá sem brjóta á starfsmönnum til þess að leiðrétta þau brot sem augljóslega hafa verið framin.

Það er annað sem ég tel að þurfi að fylgjast vel með og skoða, það er aðgengi verkalýðsfélaganna að erlendum starfsmönnum. Möguleika verkalýðsfélaganna til þess að gefa starfsmönnum upplýsingar, ábyrgð hins opinbera að koma upplýsingum á framfæri. Það er til vansa að það skuli vera þannig í dag að fyrirtæki geti bannað verkalýðsfélögum að koma á vinnustað og uppfræða starfsmenn og upplýsa þá um réttmæt kjör og hvaða rétt þeir eiga. Verkalýðsfélögin bæði hafa þessa skyldu og eiga að geta komið þessu á framfæri.

Það vekur mig einnig til umhugsunar og veldur mér áhyggjum að Vinnumálastofnun skuli ekki vera ætlað meira fjármagn til að fylgja þessu eftir. Það er alveg ljóst að stofnuninni er í dag þröngur stakkur skorinn með fjárveitingum, hvað þá að bæta þessu á sig. Miðað við þau útgjöld sem ætlunin er að heimila til þess að uppfylla frumvarpið, verði það að lögum, sem ég vona, er augljóst að styrkja þarf stofnunina mun betur en gert er í dag. Það er alvarlegt þegar um vísvitandi brot er að ræða. Mér finnst það öllu alvarlegra þegar um íslensk fyrirtæki er að ræða. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst það enn alvarlegra þegar um íslensk fyrirtæki er að ræða, sem geta fengið sig til þess að brjóta á erlendum verkamönnum til þess að græða meira. Eru þar af leiðandi með undirboð og grafa undan íslenskum fyrirtækjum sem vilja borga rétt og eðlileg laun og búa vel að starfsmönnum sínum. Þetta er orðið þannig að þau hafa ekki lengur rekstrargrundvöll og þar af leiðandi er hvert fyrirtækið á fætur öðru að gefast upp á framleiðslu og fara með framleiðslu sína úr landi ef það hættir þá ekki rekstri. Hluti af þessu er vegna óeðlilegra undirboða og lágra launa og ekkert síður starfsmanna hjá íslenskum fyrirtækjum.

Þetta er meinsemd sem verkalýðsfélögin, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið verða að geta brotið niður hið fyrsta. Þetta er búið að þrífast of lengi þessi ár frá því að holskeflu erlendra verkamanna var hleypt inn í landið eða við þurftum á þeim að halda. Ef við stöðvum þetta ekki núna munum við brjóta niður kaup og kjör verkafólks hér á landi og það mun fyrst og fremst bitna á láglaunafólki.