Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:11:12 (6080)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Sá hv. þingmaður sem talaði á undan mér, hv. þm. Þuríður Backman, sagði í lokaorðum sínum að hið mikla flæði fólks af erlendu bergi brotið hingað til lands mundi væntanlega hafa neikvæð áhrif, ef svo má segja, á kjör launafólks á Íslandi og kannski ekki síst þeirra sem eru lægst launaðir.

Mig langar til að fara aðeins yfir þessi mál, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson sem hefur átt sæti í félagsmálanefnd þegar þetta mál hefur verið til umræðu kom í ræðustól áðan og lýsti því að hann teldi að þetta frumvarp væri til mikilla hagsbóta frá því sem áður var. Ég á ekki í neinum vandræðum með að trúa því að þetta sé til bóta. Ég hef ekki komist sjálfur á fundi í félagsmálanefnd þar sem ég hef verið upptekinn á öðrum vettvangi en Valdimar Leó hefur setið þar sem varamaður minn.

Mig langaði aðeins til að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nýjustu tölur sýna að erlendum ríkisborgurum fjölgar stöðugt hér á landi. Í morgun bárust fréttir af því frá Hagstofu Íslands sem hefur verið að birta mannfjöldatölur frá 31. desember sl. að hlutfall útlendinga af íbúum hér á landi er orðið 6%. Þetta staðfestir það sem við höfum vitað um nokkurt skeið, að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög hratt hér á landi. Þeim fjölgaði um nærri 5 þúsund á síðasta ári. Þetta er mjög mikil mannfjölgun, virðulegi forseti, í okkar litla landi. Við erum ekki nema 300 þúsund, og þetta hlýtur að valda ýmsum breytingum og hlýtur að vera mjög mikil félagsleg áskorun fyrir þjóðina, kannski ekki síst þegar fram í sækir, þ.e. ef það kemur í ljós að stór hluti af því fólki sem hingað er komið getur hugsað sér og ætlar að setjast hér að til langframa og jafnvel ævilangt.

Þegar maður rýnir í tölurnar á vef Hagstofu Íslands — ég hvet þingmenn til að kynna sér þessar tölur — sést að fjölgunin er afskaplega hröð. Núna er hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda eitthvað um 6%. Ef maður skoðar kúrfuna yfir aukninguna er hún nánast stöðug upp á við og er búin að vera það í tvö ár. Með sama áframhaldi er ekki ólíklegt að um fjórðungur íbúa á Íslandi verði af erlendu bergi brotinn eftir u.þ.b. 5–10 ár, ef fjölgunin heldur áfram eins og hún hefur verið. Þetta er flókið ferli. Það eru margar breytur sem hafa að sjálfsögðu áhrif á þetta. Maður veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér, en mér finnst þetta fullkomið tilefni til að íhuga þessa hluti. Hvað gerist ef viðvarandi þensluástand heldur áfram, hvað gerist ef viðvarandi stórframkvæmdir halda áfram í landinu í til að mynda stóriðju og öðrum greinum atvinnulífsins? Hvað mun þá gerast? Hvers konar ástand mun þetta kalla á?

Ef við skoðum tölurnar yfir þá sem eru komnir hingað sjáum við að þetta er fólk á besta aldri, ef svo má segja. Börn eru tiltölulega fá sem gæti bent til þess að þeir sem hingað eru komnir séu þá einkum komnir í atvinnuleit, séu þá hugsanlega einhvers konar farandverkamenn. Mér finnst hins vegar vanta mjög, virðulegi forseti, upplýsingar um það hvaða fólk er hér á ferðinni. Íslensk stjórnvöld hafa hvergi staðið sig nægilega vel í því að kanna það og reyna að fylgjast með því hvaða fólk er á ferðinni og hvaða væntingar það hefur til að mynda varðandi Ísland, varðandi hugsanlega búsetu á Íslandi og annað þar fram eftir götunum. Ég held að það mundi hjálpa okkur mikið ef við vissum meira um þetta. Þá gætum við hugsað fyrir ráðstöfunum varðandi velferðarkerfið okkar. Það er alveg augljóst mál að ef það fólk sem hingað er komið núna, erlendir ríkisborgarar sem eru að mestu leyti fólk á besta aldri, hugsar sér að setjast hér að og ef það hugsar sér að fá hingað fjölskyldur sínar þurfum við að gera ráðstafanir varðandi skólakerfið. Við þurfum þá að gera ráðstafanir varðandi heilbrigðiskerfið. Við þurfum náttúrlega líka að gera ráðstafanir í öldrunarþjónustu því að við eldumst öll eftir því sem dagarnir og árin líða. Sú fjölgun sem er núna að bætast við þjóðina er umfram þær áætlanir sem við höfum gert miðað við mannfjöldaspár og annað hvað varðar okkur sem erum þó hér á Íslandi og höfum búið hér mann fram að manni og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta segja sig sjálft.

Sú fjölgun sem nú er að verða kemur ofan á allt annað. Sá illi grunur læðist að mér að við séum mjög illa undirbúin til framtíðar og þannig lagað séð getur þetta skapað mjög miklar áskoranir fyrir okkur og sérstaklega fyrir velferðarkerfið okkar en að sjálfsgöðu einnig miklar áskoranir á vinnumarkaði.

Ég leit aðeins yfir umsagnir sem bárust um þetta mál og ég vil segja að ég hnaut sérstaklega um eina þeirra, þ.e. umsögnina frá Austurlandi. Þar hefur fjölgunin verið einna mest. Það er Starfsgreinafélag Austurlands sem sendi inn þá umsögn. Það kom mér nokkuð á óvart að sjá hversu harðorð umsögnin er þó að ég hafi kannski átt von á einhverju. Hérna segir m.a., með leyfi forseta:

„Síðustu ár hefur atvinnulíf á Austurlandi tekið stakkaskiptum vegna stórframkvæmda á svæðinu. Mikill fjöldi erlendra starfsmanna hefur komið á félagssvæði okkar í tengslum við þessar framkvæmdir og almenna uppbyggingu sem fylgt hefur í kjölfarið. Talsverð brögð hafa verið að því að brotið hafi verið á erlendu launafólki og kjör þess hafi verið undir lágmarkskjörum samanborið við íslenska kjarasamninga. Ástæður þessara brota má rekja til eftirfarandi þátta:

1. Erlend fyrirtæki þekkja ekki til reglna sem hér gilda og leita sér ekki ráðgjafar hjá samstarfsaðilum hér á landi.

2. Erlend fyrirtæki þráast við í lengstu lög að virða lög og kjarasamninga þrátt fyrir ráðgjöf t.d. ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækja.

3. Erlend fyrirtæki (og starfsmannaleigur íslenskar sem erlendar) brjóta vísvitandi á starfsmönnum sínum og reyna á alla lund að takmarka aðgang stéttarfélaga að starfsmönnum sínum og tefja eins og unnt er alla málsmeðferð.

Þetta ástand er farið að bitna beint á félagsmönnum Afls og má fullyrða að hér á svæðinu eru „félagsleg undirboð“ í gangi þrátt fyrir viðleitni félagsins til viðnáms.“

Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart og þetta staðfestir á vissan hátt það sem við höfum stundum talað um í þessum sal, þ.e. að víða væri pottur brotinn varðandi kjör erlends starfsfólks á Íslandi, það væri verið að brjóta á því fólki sem hingað hefði komið og að í gangi væru félagsleg undirboð. Hér segir áfram í þessari umsögn, með leyfi forseta:

„Það er skoðun stjórnar Afls svo og fjölmargra funda trúnaðarmanna félagsins á svæðinu, að erlend fyrirtæki svo og starfsmannaleigur hafa í mörgum tilfellum beitt erlent starfsfólk sitt þvingunum. Ljóst er að jafnvel lág laun á íslenskan mælikvarða geta verið mjög há í heimalandi starfsfólksins. Enn fremur höfum við ítrekað fengið heimildir fyrir því að erlendu launafólki er hótað brottrekstri og heimflutningi ræði það við fulltrúa félagsins eða yfirvöld. Þá eru óstaðfestar heimildir fyrir því að einstök fyrirtæki gefi út fyrirmæli um hvað starfsfólk skuli segja yfirvöldum eða fulltrúum stéttarfélaga og jafnvel munu vera dæmi um að dreift hafi verið fjölrituðu plaggi með fyrirmælum um það hverju starfsmenn skuli ljúga um launakjör sín.

Í einu tilviki, sem nú er til rannsóknar hjá félaginu, eru uppi grunsemdir um að erlent fyrirtæki, með aðstoð íslensks samstarfsaðila, gefi út launaseðla með eðlilegum launum og skili sköttum og skyldum samkvæmt þeim — en greiði síðan erlendu starfsfólki mun lægri laun, samkvæmt ráðningarsamningi gerðum í heimalandi starfsmanna og sem hefur aldrei verið sýndur Vinnumálastofnun eða stéttarfélagi hér á landi. Starfsmenn þessa fyrirtækis hafa skýr fyrirmæli um að svara öllum fyrirspurnum á þá lund að þeir fái greidd laun samkvæmt íslensku launaseðlunum og hótað brottrekstri og jafnvel öðru verra, skýri þeir satt og rétt frá.

Í samtölum við forráðamenn og yfirmenn fjölda íslenskra fyrirtækja síðustu missiri hefur ítrekað komið fram að fyrirtæki sem virða lög og kjarasamninga standa nú frammi fyrir því að vera í samkeppni við fyrirtæki sem brjóta á starfsfólki sínu, virða ekki kjarasamninga og sinna hvorki um öryggi starfsmanna sinna né aðbúnað.

Það má vera öllum ljóst að slík starfsemi er ekki vænleg til að styrkja það velferðarkerfi sem íslenska þjóðin hefur byggt upp á síðustu áratugum.“

Virðulegi forseti. Bréfritari heldur síðan áfram og gerir athugasemdir við hinar ýmsu greinar frumvarpsins sem við erum nú að ræða. Ég hleyp yfir það en mig langar til að vitna í lokaorð þessarar umsagnar, með leyfi forseta:

„Við vekjum athygli á því að við metum stöðuna þannig að við séum hreinlega í nauðvörn fyrir kjörum launafólks á svæðinu. Með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan lífskjörum okkar félagsmanna og brotið er á erlendu launafólki vísvitandi. Nú þegar hefur þetta bitnað helst á þeim sem síst skyldi, lægst launuðu félagsmönnum okkar í ýmiss konar þjónustustörfum.

Enn fremur er hart sótt að félagsmönnum okkar í ýmsum iðngreinum og má sérstaklega nefna byggingariðnað og málmiðnað. Hér er starfsfólk með óstaðfest iðnréttindi að ganga í störf íslenskra iðnaðarmanna og dæmi eru um heil fjölbýlishús í byggingu þar sem varla sjást iðnmenntaðir menn.

Ef ekki verður brugðist hart við má búast við að undirboð herji á vinnumarkaðinn allan innan tíðar og þannig verði grafi undan velferðarkerfi okkar.

Við biðjum því þingmenn að taka ábendingar okkar til málefnalegrar umfjöllunar.

F.h. Afls — Starfsgreinafélags Austurlands

Sverrir Albertsson.“

Þetta bréf er dagsett á Egilsstöðum þann 19. febrúar sl.

Hér er kveðið fast að orði í umsögn sem kemur úr grasrótinni, frá stóru verkalýðsfélagi á Austurlandi þar sem hafa verið miklir umbótatímar, miklar stórframkvæmdir og þær hafa að verulegu leyti verið reknar áfram með innflutningi á starfsfólki. Það er staðreynd sem við öll vitum og höfum vitað um margra missira skeið. Þarna er þróunin kannski komin einna lengst á landinu hvað varðar hlutfall erlendra ríkisborgara í íbúafjölda eftir landshlutum. Þarna er þróunin þannig að um fjórðungur íbúa á Austurlandi er samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar af erlendu bergi brotinn. Þannig er það.

Við sjáum umsögnina, kvartanir berast frá verkalýðsfélagi og aðvörunarorð og nánast neyðaróp, finnst mér, frá Austurlandi, frá verkafólki, iðnaðarmönnum, um að í gangi séu félagsleg undirboð sem grafi undan kjörum launafólks á svæðinu.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umsögn svo alvarleg og þetta kall sem kemur að austan eitthvað sem við getum ekki hunsað. Þetta er grafalvarlegt mál og það er alveg með ólíkindum að fjölmiðlar hér á landi skuli ekki hafa gert meira af því að kafa ofan í þetta. Kannski er það vegna þess að stærstur partur af fjölmiðlum á Íslandi er í vasanum á fjármagnseigendum þessa lands og það hentar ekki hagsmunum fjármagnseigendanna að mikið sé fjallað um þessa hluti. Ég held að það henti frekar fjármagnseigendum að viðhalda núverandi þensluástandi sem að verulegu leyti er byggt upp á miklum innflutningi á erlendu vinnuafli. Það er verið að fóðra þessa vél og halda niðri launaskriði og verðbólgu í landinu, m.a. með þessum aðgerðum. Eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti, er á vissan hátt verið að fórna langtímahagsmunum íslensku þjóðarinnar fyrir skammtímahagsmuni í efnahagsmálum og um leið verið að grafa undan stéttarfélögum í landinu. Það er verið að grafa undan markaðslaunakerfinu, það er vegið mjög alvarlega að kjörum launafólks, sérstaklega ákveðinna stétta. Við höfum vísbendingar um það að laun í byggingariðnaði hafa ekki haldið í við launaþróun í öðrum starfsgreinum hér á landi. Við höfum líka séð tölur um það að launaþróun í verslun og þjónustu hafi ekki haldið í við aðrar starfsstéttir í landinu. Þarna er haldið aftur af verðbólgudraugnum og reikningurinn er sendur ákveðnum starfsstéttum.

Það má alveg spyrja sig að því, virðulegi forseti, hvort þetta sé sanngjarnt. Er sanngjarnt að við reynum að glíma við þensluástand sem ríkisstjórnin hefur skapað? Er sanngjarnt að við reynum að glíma við verðbólgudrauginn sem náttúrlega hefur verið vakinn upp af ríkisstjórninni? Er það sanngjarnt að við reynum að gera það með þeim hætti að við sendum reikninginn nær eingöngu á ákveðnar starfsstéttir í landinu? Virðulegi forseti. Svar mitt við þessu er nei, mér finnst það ekki sanngjarnt og ég held að það geti haft alvarlegar afleiðingar til framtíðar ef þessi þróun heldur áfram eins og hún hefur gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að við reynum að draga úr þenslunni, við verðum að kæla niður hagkerfið, draga úr þessari miklu eftirspurn sem hefur verið eftir vinnuafli til að minnka, vonandi, þennan innflutning á fólki erlendis frá.

Við hér á Íslandi leysum ekki vandamál í öðrum löndum með því að flytja inn fólk frá þeim löndum og búa um það í því velferðarkerfi sem við höfum byggt upp á okkar eigin forsendum miðað við okkar eigin þarfir og áætlanir. Ég tel að það sé röng stefna. Það er bara sannfæring mín. Ég er ekki sammála til að mynda Ágústi Einarssyni prófessor sem nú er við Háskólann á Bifröst og skrifaði kennslubók sem kom út árið 2005 þar sem hann skrifar litla hugleiðingu í lokakafla bókarinnar. Þetta er svipmynd á bls. 427 í þessari kennslubók, Rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson, sem ef ég man rétt er fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og núna rektor við Háskólann á Bifröst. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýnin. Íslendingar sem milljónaþjóð

Merkilegar breytingar hafa orðið hérlendis síðustu áratugi eins og fjallað er um í mörgum fyrri svipmyndum. Breytingar hafa þó orðið víðar. Við fæðingu Krists bjuggu 130 milljónir manna á jörðinni. Um aldamótin 1900 bjuggu 1,3 milljarðar á jörðinni, eða jafnmargt fólk og Kínverjar eru núna. Nú eru jarðarbúar 6,3 milljarðar. Fjölgunin á síðustu hundrað árum er því mjög mikil, eða 5 milljarðar. Talið er að íbúar jarðar verði 8 milljarðar á næstu 25 árum, sem sé að þeim fjölgi um 2 milljarða frá því sem nú er. Öll þessi aukning verður í Asíu eða öðrum þróunarríkjum.

Gífurleg vandamál koma til með að fylgja þessari fjölgun varðandi fæðuöflun, orku, vatn og lífvænleg svæði. Hvernig maðurinn tekst á við öll þessi vandamál til viðbótar við margvíslegan umhverfisvanda, sem að hluta kemur til vegna þessarar fólksfjölgunar, er óvíst. Hinar fátæku þjóðir eru helmingur jarðarbúa, eða yfir 3 milljarðar manna. Misskiptingin er ótrúlega mikil og af 200 ríkjum heims teljast 100 til þróunarlanda. Íslendingar verja sáralitlu til þróunarmála þrátt fyrir að vera meðal 10 ríkustu þjóða heims.

Þjóðríkin breytast og Ísland með. Mikil fjölgun háskólamanna sýnir vel að lykillinn að góðum lífskjörum til framtíðar er aukin menntun, ekki hvað síst menntun kvenna í hinum fátækari hluta heimsins. Mestu auðlindir næstu áratugi verða byggileg svæði, vatn og orka. Það vantar mjög byggileg svæði í heiminum enda eru alltaf bestu svæðin nýtt fyrst. Vatn verður stríðsástæða framtíðarinnar í miklu meira mæli en olía nú eða aðrar náttúruauðlindir á öldum áður. Það er augljóst að helsta vandamál vegna fólksfjölgunarinnar verður að tryggja nægjanlega orku.“

Nú kemur það sem er kannski kjarninn í þessu, virðulegi forseti:

„Það er merkilegt að Ísland á allar þessar auðlindir í miklu meira mæli en aðrar þjóðir og í mun meira magni en við gerum okkur grein fyrir. Það búa aðeins tæplega 300.000 manns á Íslandi, eða um 3 íbúar á hvern ferkílómetra og er Ísland 6. strjálbýlasta land heims. Stór hluti Íslands er þó vel byggilegur en 25% landsins eru í minna en 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæglega gæti ein milljón manns búið á höfuðborgarsvæðinu miðað við hefðbundinn þéttleika búsetu í erlendum borgum. Höfuðborgarsvæðið, þar sem 63% þjóðarinnar búa, er aðeins 1% af flatarmáli landsins. Það er engin goðgá að tala um að hér gætu auðveldlega búið 3 til 5 milljónir manna og lifað við góð skilyrði. Við eigum nóg af vatni, einungis 5% af ræktanlegu landi er nú ræktað og við sitjum að einni mestu auðlind heims, sem er djúphitinn.

Íslendingar eiga enn mikla virkjanlega vatnsorku en djúphitinn er þó líklega ein verðmætasta auðlind Íslendinga fyrr og síðar. Vegna djúphitans er hægt að nýta orku í iðrum jarðar en boraðar eru a.m.k. 5 km djúpar holur, sem eru álíka djúpar og lengstu olíuborholur, en mörg tæknivandamál eru enn óleyst við það hvernig hægt er að beisla hitann.“

Síðar segir höfundur, með leyfi forseta:

„Það er ekki úr vegi að ljúka þessari bók um rekstrarhagfræði þar sem fjallað er um hagkvæmni í rekstri og samskiptum manna með því að varpa því fram að Íslendingar ættu að bjóða fólk af erlendum uppruna velkomið hingað til búsetu í ríkum mæli. Við ættum að verða þriggja milljóna manna þjóð fljótlega, sem sé tífalda íbúafjöldann. Með því legðum við fram mikilvægan skref til bættra lífskjara jarðarbúa. Þetta ætti að vera markmið okkar næstu áratugi.“

Með þessum orðum lýkur kennslubókinni í rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson.

Þetta er áhugaverð hugsun sem hér er sett fram og kannski réttmæt að vissu leyti. Það má alveg færa rök fyrir því að Ísland sé mjög strjálbýlt land og kannski að stærstum hluta óbyggt. Það má vel færa rök fyrir því að hér séu nægar náttúruauðlindir til að hér geti búið 3–5 millj. manna. Það má benda á mikil auðæfi landsins, þau auðæfi sem við erum á hinu háa Alþingi að deila um hvort skuli vera í þjóðareign, þá með hvaða hætti og hvernig við ætlum að skilgreina það. Við getum talað um fiskimiðin, við getum talað um orkuna, bæði gufuorkuna en líka vatnsföllin. Við getum bent á það að stór hluti af ræktanlegu landi á Íslandi hefur hvergi verið nýttur með þeim hætti sem hægt væri. Við getum bent á það að hér er nægt pláss fyrir byggingar og önnur mannvirki. Landið er að verulegum hluta, hvað eigum við að segja, strjálbýlt og jafnvel óbyggt.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að halda mjög langa ræðu, og ætla nú að fara að finna eitthvert niðurlag í þessu hjá mér. Mig langaði til að lesa upp þennan litla kafla úr þessari bók til að varpa þessari hugsun fram. Það eru sumir að hugsa þær hugsanir að hér sé kannski best að fara markvisst í að fjölga þjóðinni stórkostlega á stuttum tíma. Það má vel vera, virðulegi forseti, að einhver öfl í þjóðfélaginu sjái sér efnahagslegan ávinning í því að gera þetta en ég held að þegar maður hugsar sig svolítið um og veltir þessu fyrir sér blasi við að einmitt svona þjóðfélagsbylting, þ.e. að ætla að flytja inn fólk í mjög stórum stíl til að keyra hér áfram hagvöxt til að byggja upp þjóðfélagið í miklu meiri fjölda en hér býr í dag og langt umfram það sem þjóðin fjölgar sér sjálf, gera það með innflutningi á fólki, sé ekki það sem við viljum, flest okkar, a.m.k. er ég á móti því.

Ég segi það alveg eins og er. Ég er algerlega á móti því og við í Frjálslynda flokknum. Við Íslendingar eigum að búa í þessu landi á okkar eigin forsendum. Að sjálfsögðu er fólk velkomið hingað en við eigum sjálf að ráða eftir bestu getu á hverjum tíma streyminu inn í landið. Við eigum ekki að fara út í það að skapa hér efnahagsaðstæður með einhverjum þeim hætti sem gerir það að verkum að kalla þurfi á stóraukið innstreymi af nýbúum til að halda efnahagskerfinu gangandi, til að halda þessari maskínu þannig að hún virki með einhverjum hætti. Þá held ég að það sé miklu vænlegra, virðulegi forseti, að grípa til aðgerða til að kæla niður hagkerfið og fara okkur frekar hægt og halda áfram eins og við höfum gert í 1100 ár, að lifa áfram í þessu landi á okkar eigin forsendum og laga uppbyggingu og annað í landinu að okkur sjálfum, þörfum okkar, þróun í mannfjölda, þ.e. fæðingartíðni og öðru þar fram eftir götunum.

Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta duga að sinni um þennan málaflokk, þ.e. innflytjendamálin og allt sem þeim tengist, verkalýðsmálin, kjaramálin, þjóðfélagsmálin, félagsmálin og allt þetta. Mig grunar innst inni að síðasta orðið sé ekki sagt í þessari umræðu á þeim vordögum sem brátt fara í hönd.