Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:39:04 (6082)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að þingmaður Samfylkingarinnar skuli koma upp í ræðustól í andsvar og tala um það sem ég sagði um fjölmiðla þegar þingmaður Samfylkingarinnar hefði kannski átt að veita andsvar við þeim litla kafla sem ég las úr kennslubók eftir Ágúst Einarsson þar sem prófessorinn lagði drögin að því að fjölga Íslendingum á mettíma úr 300 þúsundum í 3 milljónir og vildi gera það með taumlausum innflutningi á fólki.

Eins og ég sagði áðan finnst mér fjölmiðlar ekki hafa staðið sig almennilega í því að greina frá áhrifum þessa mikla innstreymis hingað, til að mynda á launaþróun og launakjör hjá alþýðu þessa lands. Mér finnst það ekki hafa komið nægilega skýrt fram. Mér finnst hins vegar sumir fjölmiðlar gangast mikið upp í því að skrifa um að þetta sé allt saman alveg rosalega flott og frábært. Þeir stunda að mínu viti ekki mjög gagnrýna fréttamennsku hvað þessa hluti varðar.

Af hverju kalla ég eftir því að hér sé stunduð gagnrýnni fréttamennska en verið hefur? Ég geri það vegna þess að ég tel að einmitt það sem er að gerast núna og mun gerast á næstu missirum sé kannski ein mesta þjóðfélagsbreyting sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir á seinni tímum. Það er ekkert flóknara en það. Þegar hlutfall erlendra nýbúa er hér farið að nálgast 10% og jafnvel meira en þekkist í öðrum Evrópulöndum og það gerist á örfáum missirum er það stórkostleg þjóðfélagsbreyting. Það sem við höfum verið að gera í Frjálslynda flokknum er að við höfum kallað eftir umræðu um þessi mál. Við Íslendingar sem þjóð verðum að fara að gera það upp við okkur hvert við viljum stefna í þessum málum.

Hvert viljum við stefna í þessum málum? Viljum við fara leiðina sem fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar bendir á í kennslubók sinni? Er það sú leið sem við viljum fara eða viljum við fara einhverja aðra leið? Mér þætti mjög gaman að fá að heyra fulltrúa annarra stjórnmálaflokka lýsa því hvert þeir telji að við eigum að stefna í þessum málum. Eigum við bara að láta reka á reiðanum eins og mér finnst við hafa gert fram til þessa eða eigum við að hafa einhverja almennilega stefnu?