Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:43:40 (6084)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan var að ég teldi að það þjónaði ekki hagsmunum fjármagnseigenda og annarra hér á landi að fjallað væri um þetta mikla innflæði með gagnrýnum hætti. Við getum alveg farið yfir það hverjir eiga helstu fjölmiðla hér á landi. Ég held að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé fullkunnugt um það. Eru það ekki aðilar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta, til að mynda í fjármálakerfi landsins og öðrum atvinnugreinum? Ég held að það sé bara þannig. (Gripið fram í.) Ég var bara að segja að það þjónar ekki hagsmunum eigenda þessara blaða að fjallað sé um þessa hluti með gagnrýnum hætti. Ég kalla eftir miklu gagnrýnni fréttaflutningi um þessi mál og miklu gagnrýnni umræðu um þau, ekki bara úti í þjóðfélaginu heldur líka í þingsal. Hvernig stendur á því að við þingmenn virðumst ekki eiga að fá tækifæri til að ræða nýútkomna stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda? Hvernig stendur á því? (DJ: Hún verður rædd.) Verður hún rædd, hv. formaður félagsmálanefndar, Dagný Jónsdóttir? (Gripið fram í.) Já, ég vona að svo verði og þá mun ég fagna því.

Ég get ekki átt orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur með frammíköllum fram og til baka í salnum, það er mjög erfitt. Ég skal þegja í 5 sekúndur og hlusta eftir hvað þingmaðurinn er að segja. Nei, ég fæ ekkert svar. (JóhS: … um að fjöldi erlends vinnuafls verði jafnstór hluti þó að við hefðum …) Það má vel vera að hann væri jafnstór eða jafnmikill, það má vel vera, ég get ekkert sagt til um það. Ég er ekkert viss um að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir geti heldur sagt það til um það. Sennilega væri hann það, það má vel vera, en af hverju hefur þetta ástand skapast og hverjir bera ábyrgð á því? Ég fór yfir það í ræðu minni áðan.

Þensluástandið sem búið hefur verið til í þjóðfélaginu hefur kallað eftir þessu. Við erum komin langt fram úr okkur sem þjóð. Í þessu þensluástandi er ríkisstjórnin búin að skapa hér aðstæður sem við erum í þann veginn að missa tökin á. Þannig er það bara. Mér finnst að hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, sem situr í félagsmálanefnd og hefur mikla þingreynslu ætti kannski frekar (Forseti hringir.) að einbeita sér að slíkum hugleiðingum í stað þess að eltast við einhverja setningu sem ég sagði áðan (Forseti hringir.) um fjölmiðla þó að ég standi að sjálfsögðu við orð mín, virðulegi forseti.