Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 16:07:32 (6090)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:07]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vona nú að hv. þm. Mörður Árnason vilji hlýða á mál mitt því mig langar aðeins til að setja hann inn í þessa hluti. Mér heyrist á mæli hans að þessar hugmyndir sem við höfum verið að taka eftir í Frjálslynda flokknum hafi farið fram hjá honum. Hann hlustar væntanlega á mig og tekur þetta þá sem ákveðin varnaðarorð. Því mig grunar, virðulegi forseti, að þetta séu kannski hugmyndir sem sumir í þjóðfélaginu séu að hugsa þessa dagana, þ.e. að fara í markvissar aðgerðir til að fjölga þjóðinni stórkostlega.

Mér finnst að við ættum að ræða það vegna þess að margt af því sem til að mynda prófessor Ágúst Einarsson, núverandi rektor á Bifröst, bendir á, þ.e. grundvöllurinn fyrir þessum hugmyndum, er svo sem alveg til staðar. Þá á ég við að Ísland er mjög auðugt land til að mynda af náttúruauðlindum. Ég efast í sjálfu sér ekkert um að þetta land með öllum sínum gögnum og gæðum gæti borið tíu sinnum fleiri íbúa en nú eru í landinu og jafnvel enn fleiri. Það er því alveg einnar messu virði, virðulegi forseti, að við stöldrum aðeins við, veltum þessu aðeins fyrir okkur og ræðum þessa hluti.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni las ég upp úr kennslubók eftir Ágúst Einarsson prófessor, Rekstrarhagfræði, af bls. 427, þar sem hann skrifar á síðustu síðu bókarinnar svona hugleiðingu þar sem hann veltir þessari framtíðarsýn fyrir sér.

Ég man eftir því þegar þessi bók kom út vegna þess að ég man eftir því að þá kom Ágúst Einarsson í viðtal hjá Agli Helgasyni í þættinum Silfur Egils. Þetta var 30. október árið 2005. Það vill nú svo til, virðulegi forseti, að ég er með þetta viðtal fyrir framan mig. Mig langar til að lesa aðeins byrjunina á því vegna þess að þar fór Ágúst yfir hugmyndir sínar sem ég held að við þurfum að ræða. Ég ætla svo sem ekkert endilega að fara að skattyrðast við hv. þm. Mörð Árnason, enda á hann í sjálfu sér enga sök á þessum hugmyndum en hann hefði kannski gott af því að hlusta á þetta en Egill Helgason segir í upphafi þáttarins, með leyfi forseta:

„Ágúst Einarsson prófessor er kominn hingað. Hann var að gefa út bók sem nefnist Rekstrarhagfræði. Mikið af þessu eru stærðfræðiformúlur og fleira sem við skiljum ekkert í en þarna er reyndar tæpt á mörgum málum sem eru mjög forvitnileg og snerta samtíma vorn. Mig langar til að fara yfir svona örfáa hluti. Meðal þess sem þú segir í bókinni Ágúst, er „að við Íslendingar þurfum að verða milljónaþjóð“.“

Ágúst Einarsson svarar: Já, ég segi það. Ég er náttúrlega fyrst og fremst að skrifa rekstrarhagfræði og fjalla um markaðinn, um framboð og eftirspurn o.s.frv. Í bókinni dreg ég upp svipmyndir sem tengja fræðin því sem er að gerast í kringum okkur. Eitt af því sem ég bendi á eru breytingar sem hafa orðið á Íslandi, þ.e. að 63% af þjóðinni búa á höfuðborgarsvæðinu og ég fór að skoða hvernig þetta er annars staðar í heiminum. Þetta er eiginlega einsdæmi, Ísland er eiginlega orðið borgríki án þess að við höfum tekið eftir því, það eru bara fimm þjóðir af 160 þjóðum í heiminum sem eru með stærra hlutfall af íbúum sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Þá spyr Egill Helgason: Þá erum við að tala um að ójafnvægi, ef svo hægt er að segja, milli landsbyggðar og höfuðborgar sé eiginlega hvergi meira en hérna.

Ágúst Einarsson svarar: Nei, það má eiginlega bara segja að landsbyggðin sé horfin og ef við förum aðeins út fyrir, tökum t.d. Akranes, Suðurnesin og Árborgarsvæðið, þá eru þetta 72% af þjóðinni. Þetta er einsdæmi í heiminum. En við erum samt enn þá að tala um þéttbýli og dreifbýli þótt við séum orðin borgríki og þetta er svo merkilegt ef við hugsum til þess að höfuðborgarsvæðið er aðeins 1% af flatarmáli landsins. 99% af landsvæðinu eru eiginlega ekki nýtt til búsetu en 25% af Íslandi er á svæði sem er frá sjávarmáli upp í 200 metra hæð og það er byggingarland.

Egill Helgason: Fyrr á öldum bar Ísland tæplega 50 þús. manns. Það var svona það sem heitir „breaking-point“ en nú ertu að tala um að hér geti búið 3–10 milljónir manna.

Ágúst Einarsson svarar: Já, það er mjög einfalt, atvinnuhættirnir hafa breyst. Ísland sem svona sjálfsbjargarland, það bar ekki meira á árum áður en við nýtum aðeins 5% af ræktanlegu landi á Íslandi. Það er enginn vandi að koma fyrir milljón manns á höfuðborgarsvæðinu, ef við hefðum sama þéttbýli og er í útlöndum. Það gæti önnur milljón manns búið á Reykjanesi. Það er ekkert vandamál að koma milljón manns fyrir á Suðurlandsundirlendinu. Það sem ég dreg þarna fram þegar við hugsum aðeins til framtíðar, er að þrjú af stærstu vandamálum mannsins verða: Skortur á byggilegu svæði, skortur á vatni og skortur á orku. Það er svo merkilegt þegar við hugsum um það að við Íslendingar eigum þetta allt. Við eigum nóg byggingarland. Við eigum nóg af vatni og við sitjum hér á orkuauðlindum sem er djúphiti sem á eftir að nýta, það tekur einhverja áratugi, en við erum á plötuskilum og tiltölulega mjög grunnt sem þarf að bora, þannig að við erum með þrjár af framtíðarauðlindum. Auðvitað eigum við að nýta þetta til að bjóða fólk velkomið hingað. Það er þess vegna sem ég segi: Við eigum að stefna að því að tífalda íbúafjöldann.

Egill Helgason: Við gerum það bara ekkert sisvona, menn munu eignast jafnmörg börn og menn gerðu í þinni fjölskyldu. — Þá fer prófessorinn aðeins yfir systkinafjölda sinn sem er kannski aukaatriði en segir síðan, með leyfi forseta:

„Við eigum að fá útlendinga hingað, gera þá að Íslendingum, hjálpa þeim að aðlagast og það er ekkert mál að fá fjölda fólks til landsins. Af því að þú varst að tala um Pólverja áðan, þessa merkilegu pólsku bræður, þá starfa og búa hér fjölmargir Íslendingar sem voru upprunalega Pólverjar, eða Pólverjar sem eru að verða Íslendingar. Þetta er t.d. þjóð. Þriðjungur af pólsku þjóðinni býr erlendis. Það eru ekki allir sem vita það, en það er fjöldi fólks í heiminum sem vill mjög gjarnan koma í það umhverfi sem hér er. Það er ekkert mál fyrir okkur að hér séu 3–10 milljónir manns. Þetta er líka spurning um það hvort við höfum yfirleitt rétt á því að sitja á öllum þessum auðlindum í heimi fátæktar og örbirgðar, sitja á öllum þessum vatnsforða, sitja á öllu þessu byggingarlega svæði sem hér er, sitja á þessum orkuauðlindum. Getum við það ef við hugsum 20–30 ár fram í tímann?“

Við grípum svo niður í viðtalið síðar þar sem Ágúst Einarsson segir varðandi landbúnaðarkerfið og fleira, með leyfi forseta:

„Já, við erum með kerfi sem er eins og í mörgum löndum þar sem landsbyggðin er mjög sterkur og stór þáttur. Það er algengast að svona 5–25% af þjóð búi á höfuðborgarsvæði. Hér eru þetta 63% og við eigum að ræða svolítið út frá því vegna þess að við sjáum líka hvað er að gerast á landsbyggðinni. Íbúum þar er alltaf að fækka en samt tölum við um að við getum jafnvel snúið þessu við. Það hefur engin þjóð í heiminum getað gert. Við þurfum að setja þetta í alþjóðlegt samhengi og það er þess vegna sem ég vil líka draga upp þessa þætti eins og orkuna og vatnið. Stríð fortíðarinnar voru út af olíu, járni, námum, öll nýlendustríðin sem voru síðustu 200 árin, en stríð næstu áratuga, því það verður alltaf barist því miður, þau verða út af vatni, þau stríð verða út af búsetu. Hvar ætlum við að koma þeim 2 milljörðum manna sem íbúum jarðarinnar mun fjölga um á næstu 25 árum?“

Mig langaði aðeins til að grípa niður í þetta viðtal. Viðtalið er reyndar til hjá upplýsingaþjónustu Alþingis og hv. þm. Mörður Árnason og fleiri geta nálgast það þar og geta lesið það sér til fróðleiks og skemmtunar.

Ég verð að segja að mér hugnast alls ekki þessi framtíð, þ.e. ef við förum út í einhverjar svona aðgerðir, langt, langt í frá. Því fer svo víðsfjarri. Kemur ekki til greina, segi ég. En það má vel vera að prófessorinn hafi kastað þessu fram til að vekja umræðuna. Ég skal ekki segja. En grundvallarhugsunin á bak við þetta er sennilega alveg rétt því á Íslandi eru gríðarleg auðæfi, auðæfi sem við sem búum á landinu í dag gerum okkur kannski ekki fyllilega grein fyrir. Það mætti eflaust hugsa sér að það væri hægt að fara í einhverjar svona aðgerðir. En eins og ég segi, þá held ég að afskaplega fáir Íslendingar séu sammála því að við eigum að gera það.

En mig langaði bara til að koma hér upp þegar ég heyrði að þessi orðræða var komin í gang, virðulegi forseti, og greip með mér þessa ágætu kennslubók og þetta viðtal og langaði til að lesa það upp þannig að þingheimur hefði að minnsta kosti heyrt af þessum hugmyndum. Því ég verð að segja það, miðað við hvernig þróunin er núna, þá grunar mig það svona innst inni að minnsta kosti, að í þessu þjóðfélagi séu öfl sem gjarnan verði tilbúin til að fara út í svona aðgerðir til þess einmitt að keyra hér áfram og byggja upp enn stærra hagkerfi og reyna að búa til þjóð í landinu sem passar betur við landið, gögn þess og gæði.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.