Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 16:26:14 (6092)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:26]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum að ræða þetta í fúlustu alvöru og ekki að líta á málið eins og það sé einhver hugarleikfimi út í loftið. Ég held að prófessorinn hafi að mörgu leyti rétt fyrir sér, sérstaklega þegar hann talar um möguleika landsins og möguleikana sem gæði landsins geta fært okkur. Ég held að það sé alveg rétt að Ísland geti borið meiri mannfjölda en það gerir í dag. Það er rétt hugsun en hvort það sé rétt að mannfjöldinn verði búinn til eins og prófessorinn leggur til, um það er ég honum algjörlega ósammála.

Ég held að við ættum að staldra við og velta þessu fyrir okkur. Sumum kann að finnast þetta skemmtilegar pælingar en það er líka mjög mikil alvara á bak við þetta. Við í Frjálslynda flokknum höfum kallað eftir því að við gerum ekki sömu mistök og nágrannaþjóðirnar, t.d. í þessum málaflokki, þ.e. innflytjendamálunum, þar sem margir segja að Evrópa hafi hreinlega sofið á verðinum og ekki rankað við sér fyrr en of seint, þegar vandamálin voru orðin svo mikil að menn áttu í vandræðum með að ráða við þau. Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu nágrannaþjóðanna með því að ranka við okkur í tíma.

Ég hvet hv. þingmenn til að fara inn á vef Hagstofunnar, hagstofan.is, og skoða nýjustu tölur yfir mannfjöldaþróun á Íslandi eftir ríkisfangi og fæðingarlandi. Þær tölur eru afskaplega merkilegar. Þær eru fyllilega þess virði að menn setjist yfir þær og ræði þær, hvað hugsanlega liggur í þeim til framtíðar. Það er skylda okkar sem erum þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga að ræða þessa hluti. Við eigum að gera það og ekki að vera hrædd við að taka þessa umræðu.