Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 10:18:40 (6739)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[10:18]
Hlusta

Herdís Á. Sæmundardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa stuðningi við þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til við frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Þær lúta að því að taka Byggðastofnun út úr þeirri sameiningu stofnana sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég get tekið undir mjög margt af því sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu. Það er í sjálfu sér afar gott markmið að samræma og samhæfa allt það starf sem iðnaðarráðuneytið fer með og lýtur að stoðkerfi atvinnulífsins í þeim tilgangi að efla sóknarkraft og tryggja hámarksárangur starfsins.

Það er jafnframt ástæða til að draga sérstaklega fram og halda á lofti þeim góðu áformum sem í frumvarpinu felast sem er að koma upp þekkingarsetrum um land allt og draga þar til samstarfs ýmsa aðila á viðkomandi svæðum, eins og t.d. háskóla, ýmsar stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

Í frumvarpinu er mikil frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun og svo að ég vitni beint í frumvarpið, með leyfi forseta, eru þekkingarsetur á landsbyggðinni „þungamiðja atvinnusóknar sem einkum byggist á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði“.

Þetta er sú hugmyndafræði sem vaxtarsamningarnar byggja á og þetta er sú hugmyndafræði sem við eigum að byggja á til framtíðar. En þrátt fyrir að ýmislegt sé gott í frumvarpinu hef ég þó haft sitthvað við það að athuga. Þær athugasemdir hafa fyrst og fremst lotið að hinni hefðbundnu starfsemi sem Byggðastofnun hefur haft með höndum og sem ég tel afar mikilvæga fyrir byggðirnar og fyrirtækin í landinu. Þeirri starfsemi var að mínu mati ekki gert nógu hátt undir höfði í frumvarpinu. Það hefði með öðrum orðum þurft að tryggja betur það hlutverk sem Byggðastofnun hefur í dag gagnvart fyrirtækjum og fólki á landsbyggðinni.

Ég er þó afar ánægð með að niðurstaða skuli vera komin í málið og í framhaldinu tel ég brýnt að vinda sér í það verkefni að „efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála“ svo að ég vitni beint í byggðaáætlun, með leyfi forseta.

Þetta er einmitt eitt af þremur markmiðum sem stjórnvöld skulu hafa samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun 2006–2009 sem samþykkt var á vorþingi 2006. Sú efling á að fela í sér möguleika Byggðastofnunar til að setja aukinn kraft í atvinnuþróunarstarfið, í rannsóknarstarfið og nýsköpunarstarfið, að byggja upp þekkingarsetur um land allt og starfa af auknum krafti í anda þeirrar hugmyndafræði sem frumvarpið byggir á og sem ég fór yfir áðan. (Forseti hringir.)

Ég vil að lokum hvetja hæstv. ríkisstjórn til að fylgja þessum markmiðum í byggðaáætlun fast eftir.