Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 10:22:11 (6740)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[10:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þess sem hv. ræðumaður sem var á undan mér sagði í lok ræðu sinnar, þ.e. hún vitnaði í markmið byggðaáætlunar. Þar var gert ráð fyrir því að Byggðastofnun fengi aukið hlutverk og þar með að fjárlaganefnd Alþingis fengi með samþykkt þessarar byggðaáætlunar í raun og veru það hlutverk og þá ábyrgð að sjá til þess að fjármunir væru til staðar til að framkvæma það sem ætlast er til af Byggðastofnun.

Það mál sem við erum hér að greiða atkvæði um er búið að vera undarlegt og taka ýmsar beygjur. Sá hv. ræðumaður sem var hér í ræðustólnum á undan mér er ein af þeim sem mættu á fund iðnaðarnefndar til að mæla með því að málið yrði afgreitt með þeim hætti sem það lá fyrir, að Byggðastofnun yrði sameinuð með hinum stofnununum. En eftir tvo vetur í þæfingi í iðnaðarnefnd hefur niðurstaðan orðið sú sem hér ber raun vitni, þ.e. að menn eru hættir við allt saman. Við fögnum því. Við styðjum það að þessar tvær stofnanir sem nú á að sameina og búið var að ná góðri samstöðu um að sameina fái frið til þess að halda áfram því ferli sem hafði verið sett af stað.

Ég trúi því að það verði þeirri starfsemi til heilla en ég trúði því aldrei að það gæti orðið byggðamálunum til heilla að setja þau inn í þá óskyldu starfsemi sem þarna á að fara fram.

Það verður auðvitað að segjast eins og er að þegar menn snúa frá villu síns vegar verður maður að fagna því, þakka fyrir það og votta þeim virðingu sína fyrir það að hafa viðurkennt að þetta væri röng og vitlaus leið. Ég trúi því að í framhaldi af þessu sameinist menn um að styrkja Byggðastofnun og hætta þeirri vegferð sem hefur verið farin undir forustu Framsóknarflokksins gegn byggðamálunum í landinu, gegn Byggðastofnun, með því að tvístra þeim verkefnum út um allt eins og gert hefur verið í stað þess að nota þá stofnun sem til þess var stofnuð að styðja byggðamálin.