Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 10:24:48 (6741)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[10:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er sammála þeim tveim síðustu ræðumönnum sem hér hafa talað og lýst ánægju sinni með breytingar á þessu frumvarpi, þar á meðal stjórnarþingmanninum sem talaði áðan.

Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta arfavitlausa stjórnarfrumvarp sem búið er að þvælast fyrir fótum manna á Alþingi í tvö ár skuli nú loksins vera að gufa upp. Sú vitlausa hugmynd að troða Byggðastofnun og byggðamálunum inn í annars ágæta áætlun um að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun er sem sagt slegin af með breytingartillögum iðnaðarnefndar.

Það hefur farið eitt og hálft ár í þetta þóf, í þessa vitleysu, og á meðan hafa málefni Byggðastofnunar hangið í lausu lofti og í raun hefur þetta skapað óþarfa óvissu og töf um málefni rannsóknastofnananna líka.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er dapurlegt í hvers konar reiðarinnar útideyfu málefni Byggðastofnunar og byggðamálin hafa verið í tíð þessarar ríkisstjórnar upp á síðkastið. Í raun og veru hafa þau meira og minna verið munaðarlaus eða á hrakhólum frá því að þau voru flutt vistaskiptum úr forsætisráðuneytinu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins.

Ekki geta þeir framsóknarmenn nú verið sérstaklega stoltir af afrekum sínum á þessu sviði sem þeir standa hér frammi fyrir fullkominni uppgjöf með þetta síðasta sprell. Það er alþekkt að hér átti Byggðastofnun, eins og eitthvert vandræðabarn, að fá far með þessari sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar og var skotið á skjön inn í þegar tilbúið frumvarp um það mál, enda sást þegar lesið var það frumvarp sem kom hér inn á borð okkar í fyrrahaust og aftur í haust, sem var alveg stórmerkilegt, þ.e. að menn skyldu ekki sjá að sér eftir ófarirnar sem það frumvarp fékk í fyrra. En menn vildu láta berja á sér tvisvar áður en þeir gæfust upp og það er auðvitað þeirra val.

Það alvarlega er að byggðamálin hafa liðið stórkostlega fyrir þetta ástand, fyrir þessa óvissu, fyrir deilur og alls konar hringl sem hefur verið í þessum málaflokki um langt árabil. Byggðastofnun hefur verið allt of veik. Hún hefur á köflum verið við það að komast í þrot og ekki getað sinnt starfi sínu eins og frægast varð auðvitað í fyrra þegar hún tók þá ákvörðun, á réttum grunni, að hætta útlánastarfsemi þar sem hún fullnægði ekki lengur skilyrðum fjármálastofnana varðandi eigið fé. Henni var skipað að halda áfram að lána engu að síður sem er kafli út af fyrir sig en tímans vegna fer ég ekki nánar út í það mál hér.

Það er þó bót í máli að þessari óvissu er eytt og menn hafa snúið frá þessari vitleysu. Eftir stendur að taka þarf til hendi í byggðamálum á Íslandi og það verk bíður næstu ríkisstjórnar.