Þingsköp Alþingis

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 17:04:07 (6808)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

þingsköp Alþingis.

706. mál
[17:04]
Hlusta

Flm. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarp þetta er niðurstaða starfs sem hefur farið fram að undanförnu á vegum forseta og formanna þingflokka.

Upphafið má rekja til þess að þegar eftir breytingar á þingsköpum 1991, í kjölfar þess að deildir þingsins voru afnumdar, var ákveðið að stefna að endurskoðun þingskapanna þegar nokkur reynsla hefði fengist af þeim í einni málstofu. Hefur því verið safnað saman á undanförum árum ýmsum atriðum sem hafa þyrfti hliðsjón af þegar til endurskoðunarstarfsins kæmi og ýmist þyrfti að hafa skýrari eða breyta.

Á fundum mínum með formönnum þingflokkanna voru fleiri atriði þingskapanna til umræðu en hreyft er við í þessu frumvarpi, þar á meðal um ræðutíma, nefndaskipan og fleira, atriði sem miklu máli skipta um störf þingsins. En þar er hins vegar ágreiningur uppi og því eru þau atriði lögð til hliðar að þessu sinni. Í þessu frumvarpi því eingöngu lagðar til tæknilegar breytingar og breytingar sem samkomulag er um milli þingflokksformanna sem undirbjuggu málin með forseta.

Ég skal ekki leyna því að ég hefði kosið róttækari breytingar en eru í frumvarpinu í þá átt sem ég hef gert að umtalsefni nokkrum sinnum í ræðum hér á þinginu. Ég geri mér grein fyrir að samkomulag um þau atriði væri ekki í augsýn á þessu þingi. En ég legg áherslu á að áfram verði unnið að endurskoðun á starfsháttum þingsins en það kemur þá í hlut þess þings sem kosið verður í næstu kosningum að taka á því máli. Ég tel brýnt að þar leggist allir á eitt, stjórnarmeirihlutinn, hverjir sem hann skipa, stjórnarandstaðan og líka ríkisstjórnin.

Markmið okkar á að vera að bæta starfshætti hér á þinginu og treysta stöðu Alþingis og virðingu meðal þjóðarinnar. Ég vil geta þess sérstaklega að rætt var í hópi okkar flutningsmanna um starfstíma Alþingis og þær hugmyndir sem fram hafa komið hér í þinginu, m.a. á þingskjölum, um að lengja hann. Samstaða varð ekki um annan þingsetningardag að hausti en nú er, t.d. að flýta honum og hann yrði um miðjan september, en áfram verður kannað hvort lengja megi starfstíma þingsins með öðrum hætti.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um efnisatriði frumvarpsins. Með því eru ágætar skýringar á einstökum ákvæðum. Eins og málið er vaxið og það er samkomulagsmál milli þingflokkanna og efni þess er kunnugt þingmönnum legg ég ekki til að málið fari til nefndar.