Ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 14:56:29 (2840)

133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[14:56]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Á undanförnum árum hefur vaknað skilningur á því að það sé nauðsynlegt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis að eiga meiri og betri viðskipti við þjóðþing annarra landa en áður hafði verið. Af þeim sökum hefur verið ætlað sérstakt fé til þess af fjárlögum og það hefur verið samþykkt í forsætisnefnd Alþingis hversu mikið fé utanríkismálanefnd skuli fá til þessara hluta. Um það hefur ekki verið ágreiningur og á þessu ári var niðurstaðan sú að fara til Eystrasaltsríkja af þeirri ástæðu að við höfum átt mjög góð og náin tengsl við þær þjóðir sem þar búa. Íslendingum hefur verið gerður þar margvíslegur sómi og Eystrasaltsríki haft lagt mikla og ríka áherslu á að eiga gott samstarf við Norðurlönd.

Nú gerðist það í morgun að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, kom til viðtals í Ríkisútvarpinu og sagði þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Við hefðum helst viljað afgreiða þetta frumvarp núna fyrir jólin og gera það að lögum. Það voru í sjálfu sér engir sko, við vorum eini flokkurinn sem í raun og veru vildi starfa fram að jólum. Og auðvitað er almenningur alveg gapandi hissa á því að þingmenn skuli þurfa að fara í jólafrí, sko 8. desember til að Þórunn og Ingibjörg Sólrún og Steingrímur Jóhann Sigfússon og fleiri komist í einhverja skemmtiferð á vegum þingsins í næstu viku. Við vorum eini flokkurinn sem var tilbúinn til þess að starfa í tvær vikur í viðbót ...“

Af þessu tilefni vil ég segja að það hefur aldrei komið til tals að þær hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færu í ferðina til Eystrasaltsríkja. Ég lagði á hinn bóginn mjög ríka áherslu á það við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann kæmi með í förina því að ég hef langa reynslu af því að hann er til sóma fyrir Alþingi hvarvetna sem hann kemur á erlendum vettvangi. [Hlátrasköll í þingsal.]