Ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 15:07:22 (2845)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[15:07]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar í morgunútvarpinu í morgun og vegna þeirrar myndar sem hann gaf með orðum sínum íslensku þjóðinni um störf þingsins vil ég að það komi hér fram að hv. Alþingi starfar samkvæmt starfsáætlun. Starfsáætlun er að mestu leyti byggð á þingsköpum. Þingfrestun var áætluð í dag, 8. desember. Hæstv. forseti hefur lagt mikinn metnað í að halda starfsáætlun þingsins. Það vildi forseti gera núna og það er alveg ljóst, eins og hér hefur líka komið fram, að þingstörfin ganga fyrir öðrum störfum, bæði nefndastörfum og opinberum ferðum nefnda.

Þegar ljóst varð núna fyrr í vikunni að ekki tækist að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem Alþingi ber skylda til að afgreiða vegna skuldbindinga núna um áramótin boðaði forseti til aukafundar með varaforsetum þingsins og gerði þeim ljóst að þeir yrðu að vera viðstaddir hér áfram í næstu viku og jafnvel fram að jólum ef þess þyrfti með. Það var því alveg ljóst að forseti gerði ráðstafanir til þess að hér yrði starfandi þing ef þess þyrfti með.

Ég andmæli orðum hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og þeirri mynd sem hann gefur af þinginu. Þingmenn valsa ekki um í skemmtireisum þegar þeir eru í opinberum ferðum og þinghlé eru notuð í kjördæmum og við önnur störf. Ég vil að hv. þingmaður minnist þess í framtíðinni í störfum sínum.