Skráning og mat fasteigna

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 23:47:58 (2960)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[23:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum sem er að finna á þingskjali 543.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins, Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurð H. Guðjónsson frá Húseigendafélaginu og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Nefndinni bárust einnig umsagnir.

Í frumvarpinu er lagt til að gjaldtaka umsýslugjalds verði framlengd enn um sinn til tveggja ára, eða árin 2007 og 2008. Ég vísa til þingskjals 543 en vil geta þess að mikil umræða hefur verið um þetta umsýslugjald í gegnum tíðina og þykir nefndinni nóg um að húseigendur hafi verið látnir greiða hingað til þetta gjald.

Nefndin leggur til að starfshópur, sem hefur verið skipaður til að fara yfir núverandi tilhögun, skili tillögum strax á vorþingi þessa þings. Þannig ætti að vera unnt að gera tillögur um breytta fjármögnun í fjárlögum fyrir árið 2008.

Nefndin leggur til að þetta gjald verði framlengt um eitt ár en ekki tvö eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Hún taldi hins vegar að ekki væri hægt að hætta við verkefnið sem er statt í miðri á.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem getið er um í þingskjalinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Ásta Möller og Sæunn Stefánsdóttir.