Skráning og mat fasteigna

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 23:49:58 (2961)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[23:49]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa andstöðu við þetta frumvarp. Ég mun greiða atkvæði gegn því. Þetta er gamall draugur sem er að koma hér aftur og aftur inn í þingið og kostnaðaráætlun og kostnaður við að koma upp þessari landskrá hefur gjörsamlega farið úr böndunum og er núna orðinn fjórfalt meiri en lagt var upp með. Það var lagt upp með að um 600 millj. kr. ætti að kosta að koma upp þessari landskrá en kostnaður við hana er orðinn 2,3 milljarðar kr. Mér finnst ekki hafa verið sett fram í nefndinni núna nein eðlileg rök fyrir því hvað þetta hefur allt saman blásið út.

Virðulegi forseti. Þó er verra að fasteignaeigendur einir og sér hafa þurft að standa undir þessum kostnaði sem bólgnað hefur svo út þó full rök séu fyrir því, eins og við fórum yfir í nefndinni og fórum yfir hér við 1. umr., að aðrir ættu fremur að bera þennan kostnað en fasteignaeigendur. Þá er ég að vísa til þeirra sem hafa not af þeim gögnum sem eru í landskránni, þ.e. sveitarfélögin, tryggingafélögin, byggingafulltrúar, lánastofnanir og o.s.frv.

Því er með öllu óeðlilegt að aftur og aftur sé verið að koma með þetta mál inn í þingið og í þessum sama búningi, þ.e. að það séu alltaf fasteignaeigendur sem greiða þetta og alltaf bólgnar þessi kostnaður meira og meira út.

Það er raunverulega alveg furðulegt, virðulegi forseti, að núna fyrst sé verið að skipa nefnd til að fara yfir þetta mál í heild sinni og finna frambúðarfyrirkomulag á fjármögnuninni á landskránni. Það er alveg með ólíkindum að framkvæmdarvaldið skuli standa þannig að málum. Það er auðvitað ágætt út af fyrir sig eins og nefndin leggur upp með að í stað þess að framlengja þetta gjald um tvö ár er sett fram hér tillaga um að þessu ljúki á einu ári, þessari nefndarvinnu sem núna fyrst er verið að setja í gang. Við skulum vona að það gangi eftir þó ekkert virðist hafa gengið eftir í þessu verkefni sem lagt var af stað með, ég held, á 125. löggjafarþingi þannig að það er orðin nokkur mörg ár síðan.

Ég mótmæli því að enn skuli lagðir pinklar á fasteignaeigendur til að standa undir þessu. Það er með öllu óeðlilegt og við í Samfylkingunni munum greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.