Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 16:34:53 (3094)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:34]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar lýsa ánægju með þetta frumvarp. Ég held að hér sé verið að stíga mjög mikilvægt skref í rétta átt í að gera umhverfi stjórnmálastarfsemi hér á landi líkara því sem gerist erlendis en áður en lengra er haldið vil ég sérstaklega minnast á þátt eins hv. þingmanns sem á hvað mestan þátt í að hafa hreyft þessu máli og það er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Sá þingmaður hefur lagt ítrekað fram þingmál eftir þingmál í mörg ár sem lýtur að því að setja ákveðið regluverk í kringum stjórnmál og starfsemi stjórnmálaflokkanna. Hv. þingmaður hefur barist ötullega bæði innan þings og utan fyrir þessum málstað og hún getur nú litið stolt til baka vegna þeirra mikilvægu skrefa sem hér er verið að taka og ég held að allur þingheimur þurfi að hafa aðkomu þess þingmanns að málinu í huga og ekki síst að umræðunni og taka þátt í að þroska hana. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á mikið hrós skilið fyrir baráttu sína og við þurfum öll að hafa það í huga.

Það er jákvætt að þverpólitísk samstaða sé orðin um að setja þurfi lög hvað þetta varðar og um þær efnisgreinar sem hér eru á ferðinni. Það hefur verið ákveðin tortryggni í garð stjórnmálaflokkanna. Virðing Alþingis hefur ekki mælst eins mikil og hún ætti kannski að vera þannig að allt regluverk í þá átt að auka gegnsæi og eyða tortryggni eru jákvæð skref. Sömuleiðis stakk það auðvitað þjóðina að Ísland er eitt af síðustu löndum Evrópu sem hefur ekki löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna og Evrópuráðið hefur m.a. beint þeim tilmælum til okkar að Íslendingar setji slíkt regluverk. Stjórnmálaflokkarnir gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi. Þeir eru hluti af lýðræðinu og þess vegna er eðlilegt að eitthvert regluverk sé til staðar.

Hin þverpólitíska nefnd sem var skipuð náði saman með þessa niðurstöðu. Auðvitað eru ekki allir alveg 100% sáttir eins og gerist í slíkri vinnu. Það er eðlilegt og við eigum að líta á þetta sem fyrsta skref. Það eru endurskoðunarákvæði í þessum lögum og það er um að gera að við lærum af reynslunni og sníðum helstu vankanta af þegar að þeim er komið. Þetta frumvarp og þessi lagabálkur munu bæði auka gegnsæi og hafa margs konar praktískar breytingar fyrir stjórnmálaflokkana, t.d. hvað varðar fjáröflun og annað og stjórnmálaflokkarnir þurfa að hafa sig alla við að fara eftir þessum reglum og ég er sannfærður um að það takist. Á það hefur verið bent í umræðunni og um það spurt af hverju stjórnmálaflokkarnir séu að setja reglur sem hugsanlegt er að komast fram hjá en mér finnst það ekki vera rök í sjálfu sér. Auðvitað er hægt að brjóta allar reglur eða komast fram hjá þeim og fram hjá anda laganna sé brotaviljinn slíkur en stjórnmálaflokkar og frambjóðendur sem sækjast eftir trausti hljóta að geta sammælst um að fara eftir þeim leikreglum og þeim anda sem birtist í viðkomandi lögum.

Ríkisendurskoðun fær ákveðið hlutverk í þessum lögum, vítt hlutverk, bæði um að meta verðmæti viðkomandi frambjóðenda og flokka, þannig að bókfærður kostnaður mun aukast bæði hjá frambjóðendum í prófkjöri og stjórnmálaflokkum og síðan mun Ríkisendurskoðun koma að gerð bæði leiðbeiningarreglna. Í nefndarálitinu höfum við beint til Ríkisendurskoðunar að hún hafi samráð um gerð slíkra reglna við stjórnmálaflokkanna. En það er hins vegar umhugsunarefni hvort Ríkisendurskoðun þurfi aukin úrræði, jafnvel fjármagn til að sinna þessu viðamiklu verki.

Starfandi formaður allsherjarnefndar gerði grein fyrir breytingartillögunum sem ég tel allar vera til bóta, sérstaklega hvað varðar sveitarfélögin. Það er komið að mestu leyti tel ég til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga og það er mikilvægt. Við erum auðvitað að leggja ákveðnar skyldur á sveitarfélögin að taka þátt í að styrkja stjórnmálastarfsemi en á móti erum við að aflétta kostnaði af sveitarfélögum þegar kemur að kosningunum. Í störfum nefndarinnar kom fram að sá kostnaður getur verið um það bil 40 millj. kr. í kringum hverjar kosningar. Eins og starfandi formaður benti á leggjum við til að forsetaákvæðið, 6. gr., verði endurskoðuð. Það er mikilvægt að við leggjumst í það strax í vor og hugsum það alveg til enda.

Að lokum bendi ég á endurskoðunarákvæðið sem er í lögunum og við þurfum auðvitað að læra af reynslunni. Eflaust munum við rekast á eitthvað sem betur mætti fara og þá hvet ég þingheim til að taka höndum saman um að gera þessa góðu löggjöf enn betri. En ég vil ítreka þátt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í aðdraganda þessa máls og ég held að við þurfum öll að minnast aðkomu hennar og baráttu fyrir því að stjórnmálaflokkarnir lúti svona regluverki.