Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 16:40:19 (3095)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka til umfjöllunar löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna og reyndar kannski með almennari hætti eins og upphaflega var lagt af stað með í nefndinni, að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi og afmarka löggjöfina ekki bara við fjármál stjórnmálaflokkanna.

Sú skýrsla og frumvarp sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti gagnlegt að mínu viti og heldur til bóta þó að það sé ekki einhlítt, en mér finnst það lakara að menn ætli sér að keyra málið í gegnum þingið á hraðferð. Það kemur ekki fram í nefndaráliti allsherjarnefndar að málið hafi verið sent út til umsagnar. Það kemur hins vegar fram að tvær umsagnir hafi borist og ég hef beðið um að fá þær en ekki hefur gefist tími til þess að sækja þær og ég hef því ekki getað kynnt mér efni þeirra umsagna.

Virðulegur forseti. Ég held að menn ættu ekki að viðhafa þau vinnubrögð á Alþingi, og sérstaklega ekki í þessu máli, að fara í gegn með frumvarp um stjórnmálaflokkana í hraðferð á örskotsstundu í gegnum þingið og gera að lögum, alls ekki. Ég geri alvarlegar athugasemdir við slíkar fyrirætlanir ef þær eru uppi, virðulegi forseti. Ég styð það ekki að menn standi þannig að verki. Það þýðir ekki endilega að ég styðji ekki það sem í málinu er, ég geri greinarmun á því, en ef það eru áformin að gera þetta með hraðferð mun ég leggjast gegn því. Ég held að eftirlaunafrumvarpið ætti að vera okkur nægjanleg lexía til að endurtaka ekki þann leik.

Við erum í þeirri stöðu að fulltrúar stjórnmálaflokkanna skipa nefnd um stjórnmálaflokkana. Þeir ræða málið sín í milli, senda það til sín, kalla sjálfa sig til umsagnar og afgreiða það sjálfir. Hverjir aðrir koma að málinu? Stjórnmálastarfsemi í lýðræðisríki er ekki einkamál stjórnmálaflokkanna, alls ekki, og ég vara við því, virðulegi forseti, ef menn líta svo á að það sé ekki málefni sem komi öðrum við en stjórnmálaflokkunum sjálfum hvernig fjármál þeirra eru eða tekjuöflun þeirra.

Ég tel að þetta mál eigi að fara út til umsagnar til ýmissa aðila í þjóðfélaginu og gefa þeim kost á að veita umsögn, koma á framfæri sjónarmiðum sínum og síðan taki þingið það til umfjöllunar, því að auðvitað er það Alþingi sem setur lög og enginn annar getur gert það. Okkur þykir ekki lengur eðlilegt að einn og sami aðili taki allar ákvarðanir í máli, það er búið að aðskilja framkvæmdarvald og dómsvald, svo ég nefni dæmi, og það er ekki eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir séu eini aðilinn sem komi að máli, semji það, veiti umsögn um það og afgreiði það. Mér finnst það ekki eðlilegt fyrirkomulag. Það kann að vera að út úr því geti engu að síður komið skynsamleg löggjöf en það eru meiri líkur á því að hún verði skynsamleg ef fleiri koma að henni og sérstaklega þeir sem ekki eru hluti af kerfinu, vegna þess að aðrir þjóðfélagsþegnar eru hluti af þjóðfélaginu eins og við og þeir hafa rétt á því að hafa skoðun og setja hana fram um það hvernig stjórnmálaflokkarnir eigi að starfa. Við eigum ekki að taka þann rétt af þeim sem það vilja að koma á framfæri við Alþingi sjónarmiðum sínum í þessum efnum. Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, um formið.

Um efnið sjálft er auðvitað þó nokkuð að segja og í heild sinni finnst mér það endurspegla ríkisvæðingu stjórnmálastarfseminnar. Niðurstaða málsins er, ef maður dregur hana saman, að verið er að tryggja starfsemi stjórnmálaflokka með framlögum úr ríkissjóði. Verið er að reisa skorður við því að einstaklingar og fyrirtæki geti lagt fé til stjórnmálastarfsemi, sem ég held út af fyrir sig að rétt sé að gera, en þær skorður eru svo lágar að það er engin von til þess að stjórnmálaflokkar geti rekið starfsemi sína eða kosningabaráttu á þeim framlögum. Þess vegna er það auðvitað niðurstaða þeirra sem leggja þetta mál fram að sækja verði meiri peninga í ríkissjóð. Það er eðlileg niðurstaða út frá þeim skorðum sem menn reisa.

Þá er niðurstaðan sú að menn eru meira og minna með starfsemi sem rekin er úr ríkissjóði af þeim sem ákvarða fjárlög ríkisins. Ég held að menn eigi ekki að ganga svona langt í að takmarka fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Það er líka umhugsunarefni hve stjórnmálastarfsemin er lýðræðislega veik í þátttöku félagsmanna flokkanna í fjármögnun hreyfingarinnar. Það er mikið umhugsunarefni hversu lítið fjármagn flokkarnir fá frá sínum félagsmönnum og hlýtur að segja eitthvað um viljann til að starfa í stjórnmálaflokkunum. Menn verða auðvitað að velta því fyrir sér hvernig á þessu stendur, því að það er ekki hollt, þó að það sé nauðsynlegt að ríkissjóður eða hið opinberi leggi fé til stjórnmálastarfsemi, að það sé meira og minna á kostnað hins opinbera.

Hins vegar eru göt í málinu. Það er enginn vandi fyrir fyrirtæki eða fjársterka aðila að koma peningum inn í kosningabaráttu vegna þess að það eru engar skorður í frumvarpinu við því til hversu mikilla útgjalda flokkarnir geta stofnað. Það eru skorður við tekjunum sem þeir geta aflað sér en það eru engar skorður við þeim útgjöldum sem þeir geta stofnað til. Það eru engar skorður við þeim útgjöldum sem aðrir geta stofnað til í þeirra nafni eða fyrir þeirra hönd. Ég held að menn þurfi að skoða þessa hlið líka. Ég held að menn þurfi líka að reisa skorður við stjórnmálaáróðri í fjölmiðlum, ég er á þeirri skoðun að setja þurfi takmarkanir á það t.d. í sjónvarpi.

Ég var staddur í Bretlandi á síðasta ári og fylgdist dálítið með þingkosningunum sem þar fóru fram. Maður varð ekki var við kosningaáróður t.d. í sjónvarpi eða útvarpi og sáralítið í blöðum. Þeir setja greinilega löggjöf um þetta og reka kosningabaráttuna þannig að menn geti ekki nýtt aðgengi að fjármagni til að styrkja stöðu sína umfram aðra sem hafa minna aðgengi að fjármagni. Mér finnst það að mörgu leyti eðlilegt sjónarmið að löggjöf takmarki möguleika flokka til að afla sér fylgis umfram aðra flokka í krafti mikils aðgengis að fjármagni. Það er sláandi að í þessu frumvarpi eru engar takmarkanir settar á möguleika flokkanna til að eyða eða stofna til útgjalda, það er algjört frelsi í þeim efnum. Það eru settar takmarkanir á útgjöld einstaklinga í prófkjörum en það eru ekki settar takmarkanir á útgjöld flokka í kosningum, sem mér finnst vera sami hluturinn og menn eigi að hafa með sambærilegum hætti. (Gripið fram í: Eru tekjurnar ekki takmarkið?) Nei, tekjurnar eru ekki endilega takmark fyrir því hvað menn geta eytt, ekki endilega. Það er til í dæminu að menn safni skuldum. Það er til í dæminu að aðrir stofni til útgjalda en flokkarnir sjálfir og greiði útgjöldin. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal, sem var hér áðan, er löngu búinn að sjá að það er enginn vandi fyrir aðila að stofna til útgjalda fyrir flokkana án þess að það sé skráð á þá. Við þurfum auðvitað að taka á því svigrúmi líka.

Mér finnst líka í þessu frumvarpi of mikið stutt við flokkana sjálfa en of lítið við þingmennina. Það kemur fram í 4. gr. frumvarpsins, Framlög til þingflokka úr ríkissjóði, að áformað sé að fella niður viðbótarframlag til flokkanna í kjölfar stækkunar kjördæmanna, fjármagn sem sérstaklega var ætlað til að renna út í einstök landsbyggðarkjördæmi. Það er meiningin að fella það niður og hækka hið almenna framlag, með öðrum orðum miðstjórnarvaldið eða hið samræmda fær meira og einstök kjördæmi minna. Þingmenn fá ekki það sem á sínum tíma, fyrir átta árum, var samkomulag um að þeir fengju, aðstöðu í formi aðstoðarmanns til að sinna sínu starfi. Það er líka gildur hluti af lýðræðinu að þingmennirnir séu einhvers megnugir. Hvers megnugir eru þingmenn hér, hvaða möguleika hafa þeir á að afla eða draga saman upplýsingar fyrir sig, setja niður mál og annað slíkt? Við sjáum það bara á þessu nefndaráliti að nefndin beinir því til forsætisráðherra að vinna tiltekin verk um löggjöf varðandi framboð forseta Íslands. Á oddviti framkvæmdarvaldsins að stjórna því? Þingmenn virðast ekki hafa neitt bolmagn til að geta sjálfir sett neitt niður eða unnið í þeim efnum. Það er lélegt, virðulegi forseti. Í flestum löndum sem ég hef komið til og síðast í austurríska þingið fyrir nokkrum dögum hafa þingmenn aðstoðarmann.

Ég held að það sé hluti af lýðræðinu að styrkja stöðu þingsins, styrkja stöðu þingmanna, lýðræðið er ekki bara flokkarnir sjálfir, og að það eigi að styrkja stöðu þeirra og miðstjórnar flokkanna. Með stækkun kjördæmanna á sínum tíma veiktum við stöðu einstaklinga og hópa innan stjórnmálaflokka úti í kjördæmunum en styrktum forustumannavaldið. Með þessu frumvarpi erum við að ganga svolítið áfram á þeirri braut að byggja allt upp á forustu stjórnmálaflokkanna. Þó að hún sé alls góðs makleg verðum við að huga að öðrum þáttum lýðræðisins líka.

Það eru atriði sem ég tel rétt að vekja aðeins athygli á í 3. og 4. gr. frumvarpsins. 3. gr. er um framlög til stjórnmálasamtaka og kveðið er á um úthlutun fjár til stjórnmálasamtaka. Í 4. gr. er hins vegar talað um framlög til stjórnmálaflokka. Það er ekki endilega sami hluturinn, stjórnmálasamtök og stjórnmálaflokkar. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessu mismunandi orðalagi og spyrjast fyrir um hvort í því felist einhver mismunandi efnislegur skilningur. Ef það er ekki held ég að menn ættu að samræma orðalagið í 3. og 4. gr. þannig að enginn misskilningur sé uppi í þeim efnum.

Ég staldra líka aðeins við 13. gr. frumvarpsins um viðurlög en þar segir:

„Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara skal sæta fésektum, en alvarleg brot geta varðað fangelsi allt að sex árum.“

Hvernig er leiðbeiningin í þessum lögum til dómaranna sem eiga væntanlega að túlka þessa grein ef til þess kemur síðar? Hver eru hin alvarlegu atriði sem falla undir t.d. fangelsisviðurlögin? Er það t.d. ef frambjóðandi eyðir meiru í prófkjöri en kveðið er á um í reglunum? Er það t.d. ef flokkur tekur við hærri framlögum en mælt er fyrir um eða hefur ekki fullnægjandi bókhald á fjárreiðum sínum og ef það er flokkurinn sem er hinn brotlegi hver fer þá í fangelsi, formaður flokksins, gjaldkeri flokksins eða framkvæmdastjóri? (Gripið fram í.) Ég held að menn verði að gefa aðeins skýrari leiðbeiningar um þessi viðurlög, hvaða ástæður geta leitt til þess að menn telji rétt að beita svona hörðum viðurlögum. Ég held að menn þurfi að segja það, helst í lagatextanum en alla vega í einhverjum skýringum sem að haldi koma og gefa nánari leiðsögn um skilning á þessu ákvæði í 13. gr. því að vissulega eru viðurlögin hörð. Ég skal ekkert gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að hafa viðurlagaákvæði í löggjöf um þetta efni en mér finnst umhugsunarefni hvort menn séu á réttu spori í þessu.

Ég held að ég láti þetta duga, virðulegi forseti, um þetta mál. Mér finnst áhyggjuefni í heildina, ef maður dregur þetta saman, að brautin virðist vera í átt til vaxandi flokksræðis og vaxandi ríkisfjármögnunar stjórnmálastarfseminnar. Það eru kannski þær meginlínur sem eru áhyggjuefni. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að ætla að afgreiða þetta mál sem lög á svo stuttum tíma og án þess að senda það út til umsagnar, sérstaklega í ljósi þess að það fjallar um okkur sjálf sem erum í stjórnmálaflokkunum og það er reynsla af því að menn eru ekki alltaf bestir dómendur í eigin málum.