Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 16:58:38 (3097)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri hægt að setja á langt mál um þetta mikla mál en hér er um að ræða tímamótamál. Hér er um að ræða tímamótasátt í gömlu baráttumáli margra stjórnmálamanna um að opna bókhald og fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Hér mætast tvær leiðir sem lagðar voru til í upphafi í starfi nefndarinnar, sem var annars vegar baráttumál og þingmál hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að opna bókhald flokkanna og hins vegar tillaga frá Sjálfstæðisflokki sem Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði kynnt hér um að banna framlög til flokkanna frá fyrirtækjum.

Niðurstaðan er að sjálfsögðu málamiðlun. Þetta er tilraun til að koma böndum á starfsemi stjórnmálaflokkanna, þetta er tilraun til að treysta starfsumhverfi stjórnmálaflokkanna og þar með grundvöll lýðræðisins í landinu þar sem stjórnmálaflokkarnir gegna algjöru lykilhlutverki í því lýðræðisfyrirkomulagi sem hefur þróast á Íslandi, þetta er tilraun til að eyða tortryggni, vafa og grunsemdum um óeðlileg ítök fjársterkra aðila í starfi flokkanna. Að sjálfsögðu náðist enginn fullnaðarsigur í þessu máli heldur er þetta stórt skref fram á við. Þetta er merkilegt mál, þetta er söguleg sáttargjörð stjórnmálaflokkanna á Íslandi til að koma böndum á starfsemi þeirra til að stórbæta lýðræðislegt starfsumhverfi á Íslandi, ég er sannfærður um það.

Ég sat í nefndinni og skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Örugglega hafa allir þingmenn hérna einhvern fyrirvara við eitthvert atriði í þessu stóra og umfangsmikla máli, hvort sem það er um hámarkið sem einstaklingar og flokkar mega taka við frá fyrirtækjum, lögaðilum og einstaklingum sem er frekar lágt eða eitthvað annað. Talað er um 300 þús. kr. þak á framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, þeir mega ekki taka við hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 300 þús. kr. á ári, þannig að flokkurinn allur samanlagt má þiggja upphæð að þessu marki, 300 þús. kr. Þetta þykir mér lágt, ég skrifaði undir með fyrirvara um það, en málið í heild sinni er tímamótasátt. Auðvitað orkar margt tvímælis, það er að sumu leyti verið að skrúfa fyrir framlög frá atvinnulífinu og fyrirtækjum til flokkanna, þó er því haldið opnu áfram. Það var rætt í nefndinni um þá þróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum, t.d. þá miklu starfsemi sem hvers konar hagsmunahópar í kringum flokkana viðhafa. Þar er talið að einungis um 10% af fjármagninu sem notað er í stjórnmálastarf fari í gengum flokkana tvo, demókrataflokkinn og repúblikanaflokkinn. 90% fara í gegnum aðra starfsemi, svokallað „soft money“, alls konar hagsmunasamtök og hópa sem halda úti starfsemi utan um einhvern málstað o.s.frv. sem er að sjálfsögðu fyrst og fremst til þess að hjálpa einhverjum málstað og tilteknum flokkum. En í heild sinni er málið sigur fyrir lýðræðið í landinu. Það má gagnrýna þakið á framlögum, það má að sjálfsögðu gagnrýna framlögin frá hinu opinbera. Ég vil í leiðinni minna á mikilvægi þess að tryggja það að hluti fjármagnsins fari þangað sem hann átti að fara, til starfsemi flokkanna úti á landi með tilkomu hinna gríðarlega stóru nýju kjördæma sem ná yfir, eins og Suðurkjördæmið sem ég er í, nánast hálft Ísland landfræðilega. Það er mikilvægt að það gangi eftir eins og um var samið í upphafi þegar kjördæmaskipanin var tekin upp og ákveðið var að fara þá leið.

Hér er um að ræða öfluga tilraun sem verður vonandi endurskoðuð strax eftir næstu kosningar, t.d. hvernig lögin gáfust í kosningunum. Það er margt sem mun reyna á þarna eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti mjög réttilega á. Það er mjög auðvelt að hafa fyrirvara um mjög mörg einstök atriði. Við þurfum að sjálfsögðu að meta gildi og inntak laganna eftir kosningarnar í vor af því að þarna mun reyna mjög á mörg atriði eins og það sem lýtur að tengdum aðilum, lögaðilum, sem mega ekki samtals leggja til flokkanna nema þessa tilteknu upphæð o.s.frv. Það er að sjálfsögðu auðvelt að fara í kringum einhver atriði en það verður að reyna á löggjöfina af því að löggjöfin sem slík er sögulegur sigur. Þetta er tímamótasátt allra stjórnmálaflokkanna á Íslandi til að koma böndum á starfsemina, setja lög um opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Að því leytinu er síðasta vígið fallið, eina landið í Vestur-Evrópu þar sem ekki var slík löggjöf. Hún er fyrir löngu komin í allri Skandinavíu og Vestur-Evrópu og þess vegna fagna ég þessu máli, þess vegna skrifa ég undir álitið og styð málið af því að þetta er stórt skref í átt að því að efla lýðræðið í landinu og við komum þarna böndum á mjög mikilsverða þætti stjórnmálastarfsins.