Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 17:04:13 (3098)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[17:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég á sæti í allsherjarnefnd sem áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, eins og fram kemur á nefndaráliti þessu og er samþykk því. Ég vil einungis fara örfáum orðum um þessa niðurstöðu.

Ég tel þetta nokkuð sögulega stund, að við höfum mál fyrir framan okkur sem er þess eðlis að stjórnmálaflokkarnir hafa náð ákveðinni niðurstöðu eftir tæplega eins og hálfs árs vinnu þverpólitískrar nefndar sem um þessi mál hefur fjallað og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu.

Hins vegar vil ég taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hér hefði verið fullt tilefni til að taka lengri tíma í umræður um málið. Það hefði að sjálfsögðu þjónað lýðræðinu betur að senda málið út til umsagna og skoða á því allar hliðar.

Ég vil taka skýrt fram að það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í þeim efnum. Við höfum gagnrýnt að hvert málið á fætur öðru skuli tekið í gegn á síðustu dögum fyrir jólahlé með allt of miklum hraði. Þetta er eitt af þeim málum.

Ég vil taka undir það sem stendur í greinargerð með þessu frumvarpi. Það er mikilvægt að umræðan um stjórnmálaflokkana og fjármál þeirra sé opin og menn geri sér grein fyrir því að þeir eru hornsteinn lýðræðis í þessu landi. Forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar þjóðmálaumræðu og sá rammi sem löggjafinn markar þessari starfsemi þarf að treysta möguleika stjórnmálaflokkanna til að sinna því hlutverki, samhliða því að girða eins og kostur er fyrir mögulega misnotkun á aðstöðu eða spillingu. Þetta er auðvitað kjarni málsins og vakir undir í þessu máli. Við megum ekki missa sjónir á því.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson talaði áðan fyrir hönd Samfylkingarinnar og minntist á frumkvæði Samfylkingarinnar í þessu máli. Í því sambandi nefndi hann hlut hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég ætla sannarlega ekki að draga úr hennar hlut í umræðu um fjárreiður stjórnmálaflokkanna en hitt vil ég þó benda á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi notast við stærstan hluta þeirra reglna sem hér eru settar fram.

Við höfum frá upphafi haft opið bókhald. Við höfum haft löggilta endurskoðendur sem endurskoða bókhald okkar. Við höfum sett reglur um framlög lögaðila til stjórnmálaflokksins og höfum upplýsingar um fjárreiður þingmanna á heimasíðu flokksins.

Ég tel að auðvitað hefðu allir flokkar getað gengið á undan með góðu fordæmi og sett sér þær reglur sem hér eru lögfestar. Ég er stolt af því að vera í stjórnmálaflokki sem gerði það. En ég er líka ánægð með að náðst hafi þverpólitísk sátt eftir mikla vinnu þeirrar nefndar sem hér hefur starfað og að nú skulum við horfa fram á bætta tíma í þessum efnum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór nokkrum orðum um möguleika flokkanna á útgjöldum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það kom fram í allsherjarnefnd, þar sem við fengum nokkra gesti, að mikilvægt sé fyrir flokkana að meta útgjaldaþörf sína. Bara það eitt að flokkarnir fari að meta útgjaldaþörf sína gæti lækkað útgjöld þeirra talsvert. Það eru orð að sönnu. Í því sambandi langar mig að nefna hér hugmynd sem varðar útvarps- eða sjónvarpsauglýsingar, auglýsingar á ljósvakanum. Svanur Kristjánsson, einn af gestum nefndarinnar, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, stakk því að okkur að hugsanlegt væri að setja reglur um útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar þannig að innifalið væri í leyfum þeirra ákveðið bann við að stjórnmálaflokkar auglýsi sig á öldum ljósvakans, t.d. viku fyrir kosningar eða með hvaða hætti öðrum sem við vildum hafa það. Þetta er til marks um að ákveðin atriði ættu að koma til skoðunar og þau mætti ræða frekar. Það væri ákjósanlegra að við hefðum betri tíma til að sinna málinu.

Undir hitt vil ég líka taka, sem hér hefur verið sagt, að samkomulag er um að setja þetta mál með hraði í gegn. Þá skulum við líka hlíta því og vera opin fyrir því að málið verði tekið upp á nýjan leik. Enda gefur nefndin yfirlýsingu um það í nefndarálitinu, þótt ekki væri nema bara til að skoða ákvæðin um forsetann og forsetaframbjóðendur. Það er mál sem þarf að skoða betur og setja reglur um á næsta ári.

Það er ekki auðvelt að finna hinar fullkomnu reglur. En hluti af því sem á eftir að vinna er reglugerðin sem setja þarf á grundvelli þessara laga. Ég tel mikilvægt að nefndin sem vann þessar reglur eða aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna komi að því með Ríkisendurskoðun að semja þær reglur. Um þær reglur þarf að ríkja jafnmikil sátt og um lagaákvæðin í frumvarpinu.

Að lokum, virðulegi forseti, bendi ég á að við sem á þingi sitjum þurfum að vera meðvituð um það að á síðustu árum hefur gætt vaxandi vantrausts í garð stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Við horfum upp á skoðanakannanir á hverju einasta ári sem sýna að innan við 50% landsmanna hafa mikið traust á þingmönnum, á stjórnmálamönnum og á stjórnmálaflokkunum. Traustið á Alþingi er því miður lágt.

Þetta eru vísbendingar sem við verðum að taka til skoðunar. Ég tel að þær reglur sem settar eru fram í þessu lagafrumvarpi eigi að vera til þess fallnar að auka traust almennings á löggjafarsamkundunni, á þingmönnum og á stjórnmálaflokkum almennt. Þess vegna er ég hlynnt því að þessar reglur séu settar.