Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 17:12:03 (3100)


133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[17:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið fagnaðarefni að nú skuli brotið í blað í stjórnmálasögunni, að stjórnmálaflokkarnir hafi loks komið sér saman um löggjöf um fjármögnun stjórnmálastarfsemi og kosningabaráttu. Því ber að fagna þótt okkur hafi tekið langan tíma að komast í hóp siðmenntaðra þjóða með löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka.

Það gat ekki gengið lengur að Ísland væri eitt af þremur ríkjum í Vestur-Evrópu, ásamt Sviss og Lúxemborg, ef ég man rétt, sem ekki hefði sett lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Það var skammarlegt að ítrekað voru hunsuð tilmæli um þetta á alþjóðavettvangi, t.d. innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar. En í nefnd stofnunarinnar sem fjallar um spillingu hafði Ísland iðulega sætt ákúrum fyrir að setja ekki löggjöf um að opna fjármál stjórnmálaflokkanna. Það er því mikið fagnaðarefni að Ísland sé nú á leiðinni inn í nútímann í þessu efni ásamt öðrum þjóðum.

Við höfum lengi vitað að það að löggjöf hafi vantað um fjármál flokkanna hefur skapað, með réttu eða röngu, ákveðna tortryggni um fjármál flokkanna. Þess vegna er mjög ánægjulegt að náðst hafi bærileg samstaða milli allra flokka um að setja slík lög.

Ég hef frá árinu 1995 lagt fram frumvörp um þessi efni. Meginefnið í því frumvarpi sem við nú ræðum og á að fara að lögfesta er að verulegu leyti svipaðs eðlis og þau þingmál sem ég lagði fram um sama efni, þ.e. að birta opinberlega samræmda ársreikninga og nafngreina styrktaraðila sem gefa fjárframlög yfir tilteknum mörkum og að stjórnmálaflokkarnir birtu ársreikninga sína opinberlega.

Ég er því bærilega sátt við frumvarpið sem hér liggur fyrir þótt ég hefði viljað sjá ýmis atriði með öðrum hætti. Ég legg áherslu á að ef það koma fram agnúar á þessu þá vindi menn sér í að leiðrétta þá en bíði ekki þess að farið verði að ákvæði um að árið 2010 verði skipuð nefnd til að fara yfir lögin og framkvæmd þeirra.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka langan tíma í að ræða þetta mál af því að menn hafa komið sér saman um að ræða það ekki lengi. En það er áhyggjuefni að ekki eigi að vera gegnsæi í fjárframlögum sem koma frá einstaklingum og þau birt opinberlega líkt og hjá lögaðilum. Það gæti aukið líkurnar á áframhaldandi neðanjarðarstarfsemi við fjármögnun stjórnmálaflokka í gegnum fjárframlög frá fjársterkum aðilum. Ég hefði viljað sjá að fjárframlög upp á a.m.k. yfir 100 þús. kr. frá einstaklingum væri gert skylt að birta opinberlega.

Einnig hefði verið full ástæða til að setja fjáraustri flokkanna í kosningabaráttunni skorður, t.d. vegna auglýsinga. Auk þess finnst mér heimild frambjóðenda til þess að eyða í prófkjörsbaráttu fullrýmileg. Mér finnst ansi rýmilegt að setja þar þak og miða við 7,5 millj. kr. Ég hefði viljað sjá þessa þætti með öðrum hætti.

Ég vil líka nefna að fyrir nokkrum árum, ætli það hafi ekki verið árið 1993 eða jafnvel fyrr, ég man ekki nákvæmlega árið, var samþykkt á Alþingi að framlög lögaðila til stjórnmálaflokkanna yrðu frádráttarbær frá skatti. Forsenda margra þingmanna fyrir samþykkt þeirrar breytingar var sú að í kjölfarið yrði sett löggjöf um fjármál flokkanna. En samt eru liðin öll þessi ár, sennilega 15 ár, og við erum fyrst núna farin að sjá til lands að því er varðar löggjöf um fjármál flokkanna. Ég hefði líka viljað sjá gegnsæi í því hve mikill frádráttur er í skattgreiðslum vegna framlaga lögaðila til stjórnmálaflokka, að þessum framlögum væri haldið sérgreindum, t.d. hjá ríkisskattstjóra þannig að hægt yrði að kalla fram hverju sinni, t.d. á þingi, hve mikið hefði komið til frádráttar vegna framlaga til stjórnmálaflokkanna. Það væri í anda þess gagnsæis sem við viljum sjá í stjórnsýslunni.

Mér finnst miður að ekki hefði verið tekið á því í leiðinni að hægt væri að fylgjast með því á Alþingi og við veittum aðhald með því að halda til haga þeim niðurstöðum, um hve mikið væri frádráttarbært vegna framlaga lögaðila. En því miður er ekkert tekið á því í þessu frumvarpi, ekki í greinargerð og ekki í nefndaráliti meiri hlutans. Það þykir mér slæmt. Við höfum kallað eftir því að fá þessar upplýsingar á þingi. Ég fékk þau svör að það þjónaði ekki skattalegum hagsmunum hjá ríkisskattstjóra að aðgreina þetta, t.d. frá framlögum sem eru frádráttarbær til líknarfélaga o.s.frv. En ef vilji væri fyrir hendi til að fá þetta fram, t.d. fyrir atbeina þingsins eða fjármálaráðuneytisins, þá væri hægt að aðgreina slíkt. Ég held að það væri mikill kostur og það mundi auðvelda allt eftirlit með framkvæmd þessara laga, ef þessi frádráttarbærni væri uppi á borðinu.

Þetta eru helstu agnúarnir sem ég sé á þessu máli. Ég held að með því að birta ekki opinberlega framlög frá einstaklingum með sama hætti eins og frá lögaðilum séu þarna spillingarsmugur sem hægt væri að nýta. Ég hefði líka viljað sjá að ákvæði um tengda aðila væri skýrara og þrengra en gert er ráð í frumvarpinu, í e-lið 2. gr. Ég held að þessi skilgreining sé of víðtæk og tel að þau skilyrði sem sett eru fram varðandi tengda aðila hefði átt að tengja þótt vissulega sé til bóta að sjá viðleitnina sem þó er gerð í frumvarpinu varðandi þetta atriði.

Ég held líka að við hefðum átt að fara fyrr í endurskoðunina en árið 2010. Ég held að það hefði verið gagnlegt að hafa hana eftir um tvö ár eða svo, að þá yrði farið út í að skipa nefnd til þess að fara yfir agnúa á málinu. Mér finnst þetta of langur tími, þ.e. fram til ársins 2010.

Virðulegi forseti. Þótt ég hafi lýst ákveðnum agnúum á frumvarpinu og bent á leiðir sem ég hefði viljað sjá í frumvarpinu þá mun ég að sjálfsögðu styðja frumvarpið og einstök ákvæði þess. En ég mun fylgjast grannt með því, eins og aðrir þingmenn, hvort ástæða sé til þess að breyta löggjöfinni og herða á ýmsum ákvæðum hennar.

Það mikilvægasta er þó, virðulegi forseti, að við fáum löggjöf um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Það er mikilvægast af öllu og er vert að fagna því og segja: loksins, loksins. Alþingi hefur loksins farið í það þarfa verk að setja lög um fjármál stjórnmálaflokkanna þótt það hefði átt að gerast fyrir mörgum áratugum, virðulegi forseti.