Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.

Þskj. 386  —  356. mál.
Tillaga til þingsályktunar

um að leggja niður Þjóðhátíðarsjóð .

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að bæta svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða við skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð, nr. 361/1977, með áorðnum breytingum:

    Árlegum úthlutunum styrkja sjóðsins lýkur árið 2011. Fram að þeim tíma skal stjórn sjóðsins ráðstafa öllu fé hans til styrkveitinga í samræmi við tilgang hans.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. ákveður stjórn sjóðsins hve miklu fé skuli varið til styrkveitinga hverju sinni skv. 1. mgr.
    Nú kemur í ljós, eftir að öllu fé sjóðsins hefur verið úthlutað, að styrks hefur ekki verið vitjað innan tveggja ára eftir að síðasta úthlutun sjóðsins fór fram eða að styrkur hefur ekki verið greiddur út vegna óuppfylltra skilyrða sem sett hafa verið af stjórn sjóðsins og fellur hann þá niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal stjórn sjóðsins, án þess að ákvæði 5. gr. og 2. mgr. 7. gr. eigi við, ráðstafa slíku fé í samræmi við tilgang sjóðsins og að gættum ákvæðum 2. mgr. 8. gr.
    Stjórn sjóðsins lýkur störfum sínum þegar síðasta úthlutun hefur átt sér stað, sbr. 1. mgr. eða við ráðstöfun fjármuna skv. 3. mgr. og þegar lokauppgjör sjóðsins hefur farið fram.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Kveðið var á um stofnun Þjóðhátíðarsjóðs í tilefni af 1100 ára búsetu á Íslandi árið 1974, og gefin út skipulagsskrá þremur árum síðar nr. 361/1977. Í samræmi við 11. gr. skipulagsskrárinnar var hún sett samkvæmt ályktun Alþingis og staðfest 30. september 1977.
    Tilgangur sjóðsins er, eftir þær breytingar sem gerðar voru á skipulagsskrá sjóðsins árið 2000, að veita styrki til stofnana og annarra aðila sem hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar sem núlifandi kynslóðir hafa tekið í arf. Gert er ráð fyrir að styrkir úr sjóðnum séu viðbótarframlög til þeirra verkefna sem styrkt eru en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau.
    Stofnfé sjóðsins var upphaflega 300 milljónir gamalla króna og var ágóði Seðlabanka Íslands af útgáfu þjóðhátíðarmyntar í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi. Í upphafi var reiknað með að til sjóðsins rynni ágóði af sölu á tilefnismynt. Það hefur á hinn bóginn ekki gengið eftir. Hefur stjórn sjóðsins tilkynnt forsætisráðuneytinu að ráðstöfunartekjur sjóðsins hafi dregist verulega saman, þrátt fyrir að kannaðir hafi verið aðrir tekjumöguleikar á sviði myntútgáfu. Sé upphafleg fjárhæð framreiknuð með lánskjaravísitölu mun hún jafngilda um 345 millj. kr. Eignir sjóðsins í lok síðasta árs voru aftur á móti aðeins um 88 millj. kr. enda tekjum sjóðsins, þ.m.t. verðbótum af verðbréfaeign, verið ráðstafað í styrki á umliðnum árum.
    Með því að ekki hafa fundist aðrir tekjumöguleikar fyrir sjóðinn og stjórn hans telur ólíklegt að þeir muni finnast á næstunni, hvort sem er á sviði myntútgáfu eða með öðrum hætti, er í samræmi við 11. gr. skipulagsskrárinnar lagt til að heimilað verði að leggja niður starfsemi sjóðsins. Gangi tillagan eftir munu árlegir fjármunir sjóðsins til styrkveitinga á næstu fimm árum vera um 20 millj. kr. sem er verulega hærri fjárhæð en verið hefur til ráðstöfunar á undanförnum árum, en á árinu 2006 úthlutaði stjórn sjóðsins samtals 2,6 millj. kr. í styrki. Með þeim hætti sem hér er lagt til verður unnt að styrkja betur áhugaverð verkefni þar sem óskað er eftir hærri fjárhæðum en sjóðurinn hefur bolmagn til að veita nú.