Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 461  —  321. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Guðjóns Ólafs Jónssonar um Íslendinga í fangelsum erlendis.

     1.      Hvað er ráðuneytinu kunnugt um marga íslenska ríkisborgara sem sitja í gæsluvarðhaldi eða afplána refsivist í fangelsum erlendis? Hvar sitja viðkomandi í fangelsi og fyrir hvaða sakir og hvenær má vænta að þeir losni úr fangelsi? Svarið óskast sundurliðað eftir aldri og kyni viðkomandi.
    Ráðuneytinu er kunnugt um 10 íslenska ríkisborgara sem afplána refsivist í fangelsum erlendis. Eftirfarandi eru upplýsingar um fanga sem ráðuneytið hefur haft afskipti af:

Bandaríkin: 1 fyrir kynferðisafbrot (karl, 22 ára) lýkur skilorði sumarið 2007.
1 fyrir rán og alvarlega líkamsárás (karl, ekki vitað um aldur) lýkur afplánun 2015.
Brasilía: 2 fyrir fíkniefnabrot (karlar, 22 og 32 ára). Ekki dæmt í málunum.
Frakkaland: 2 fyrir fíkniefnabrot (karl 32 ára, kona 24 ára) ljúka afplánun 2007.
Þýskaland: 1 (karl 37 ára). Ekki vitað fyrir hvað maðurinn situr inni eða hversu lengi.

    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um afbrot, kyn eða aldur þriggja fanga í Danmörku.
    Þess má geta að íslenskum stjórnvöldum berst ekki formleg tilkynning um það þegar Íslendingar eru handteknir erlendis, heldur koma slík mál til vitundar utanríkiþjónustunnar í gegnum þá einstaklinga sem í hlut eiga eða aðila sem tengjast þeim.

     2.      Hvað hefur utanríkisráðuneytið aðstoðað marga þeirra sem getið er um í 1. tölul. og í hverju hefur sú aðstoð falist?
    Ráðuneytið hefur aðstoðað þá fanga sem framan greinir meðal annars með heimsóknum, viðtölum, samskiptum við fjölskyldur og aðstandendur, samskiptum við viðkomandi yfirvöld, túlkun í fangelsum, fundum með lögmönnum, haft milligöngu um að færa föngum bréfsefni, dagblöð, bækur og peningasendingar, og unnið í því að finna lögmenn.
    Starfsmenn sendiráða hafa eftir atvikum aðgang að gæsluvarðhaldsföngum sem sæta heimsókna-, síma-, og bréfabanni meðan á rannsókn mála stendur. Þótt það teljist ekki til vanalegra verka sendiráðsstarfsmanna hafa þeir í einhverjum tilfellum, þegar þess hefur verið óskað, verið viðstaddir réttarhöld og dómsuppkvaðningar.

     3.      Hvað hefur utanríkisráðuneytið á árunum 2002–2006 haft milligöngu um lausn margra íslenskra ríkisborgara, sem setið hafa í fangelsum erlendis, eða flutning þeirra hingað til lands til afplánunar? Óskað er eftir að í svarinu komi fram sams konar upplýsingar og beðið er um í 1. tölul.
    Almennt má segja að íslensk stjórnvöld beiti sér ekki fyrir lausn eða styttingu afplánunar íslenskra ríkisborgara erlendis. Litið er svo á að helsta verkefni utanríkisþjónustunnar í málum sem þessum sé að hafa eftirlit með því að almennra mannréttinda sé gætt gagnvart íslenskum ríkiborgurum á meðan þeir eru í haldi erlendra ríkja. Fangar geta farið fram á flutning til afplánunar á Íslandi á grundvelli Evrópusamningsins um flutning dæmdra manna, og er ekki skilyrði að viðkomandi ríki sé aðili að samningnum. Þegar beiðni berst um slíkan flutning er það í verkahring dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að afgreiða beiðnina. Slík mál koma yfirleitt ekki til meðferðar utanríkisráðuneytisins.
    Einstök tilfelli má þó nefna í þessu samhengi:
    Árið 2003 beitti ráðuneytið sér til að flýtt væri málsmeðferð manns (karls, f. 1962) sem handtekinn var í Sameinuðu arabísku furstadæmunum með skotvopn í fórum sínum. Var manninum sleppt að loknum réttarhöldum og hann sendur til Íslands.
    Árið 2006 hafði ráðuneytið milligöngu um að aðstoða fanga (karl, f. 1968) í Finnlandi við að losna nokkrum vikum fyrr úr afplánun til komast til Íslands vegna alvarlegra veikinda foreldris. Ráðuneytið hafði einnig milligöngu um flutning eins fanga (karls, f. 1980) frá Þýskalandi sem var dæmdur fyrir fíkniefnabrot.
    Á árunum 2002–2006 hafði ráðuneytið milligöngu í máli ungs íslensks ríkisborgara (karls, f. 1983) sem dæmdur var fyrir kynferðisafbrot í Bandaríkjunum. Maðurinn óskaði eftir að afplána dóm sinn á Íslandi, en þeirri beiðni var ítrekað hafnað af bandarískum yfirvöldum.