Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 601. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1056  —  601. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf á landsbyggðinni.

     1.      Hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins hafa orðið til á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar 2006?
    Ráðuneytið hefur til viðmiðunar fjölda stöðugilda hjá helstu stofnunum þess á landsbyggðinni árin 2000, 2005 og 2006, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landbúnaðarstofnun, Hólaskóla, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og skógræktarverkefnunum fimm.
    Stöðugildi þessara stofnana voru eftirfarandi á þessum árunum: Árið 2000 voru stöðugildi stofnana ráðuneytisins samtals 351, árið 2005 samtals 372 og árið 2006 voru stöðugildin 380.

     2.      Hverjar eru áætlanir ráðherra um frekari fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni?

    Ráðuneytið bendir á verulegar breytingar sem hafa orðið á stofnanaumhverfi þess á allra síðustu árum, þar sem stofnanirnar hafa fengið aukið vægi, t.d. Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli. Með samruna RALA við Landbúnaðarháskóla Íslands fluttust störf út á landsbyggðina. Sömu sögu er að segja hvað varðar stofnun Landbúnaðarstofnunar á Selfossi og tilheyrandi uppbyggingu henar þar. Þá gerir ráðuneytið ráð fyrir eflingu skógræktarverkefnanna, Héraðs- og Austurlandsskóga, Vesturlandsskóga, Norðurlandsskóga, Suðurlandsskóga og Skjólskóga á Vestfjörðum, þar sem verkefnin eru að aukast og nýir þættir skógræktar að bætast við, svo sem grisjun og úrvinnsla skógarafurða.