Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1227  —  542. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að í frumvarpinu felist nokkur stefnubreyting til betri vegar og telja að á hana megi líta sem fyrsta skref til að taka heildstætt á náttúruvernd og nýtingu náttúrugæða. Frumvarpið byggist bæði á niðurstöðum auðlindanefndar og rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma. Verði það að lögum eykur það líkur á víðtækari sátt um nokkur af þeim helstu málum sem nú eru uppi á sviði verndunar og nýtingar náttúrugæða. Til verður farvegur framtíðarstefnu þar sem hægt er að meta og ákvarða hvort landsvæði og auðlindir skulu nýtt með verndun eða með orkuvinnslu og námustarfsemi.
    Í frumvarpinu er lagt til að afmarkaður verði rammi, byggður á 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, utan um þær leyfisveitingar til rannsókna og nýtingar á auðlindum sem lögin ná til.
    Í því sambandi leggja fulltrúar Samfylkingarinnar áherslu á að rammaáætlunin um orkunýtingu fjallar um tiltekin virkjunaráform. Þar eru sjálf landsvæðin eða náttúrufyrirbrigðin ekki metin á eigin forsendum, þótt vissulega gefi umhverfisgildin vísbendingu um verðmæti náttúru á einstökum stöðum. Hafa verður þó í huga að skýrsluhöfundar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma gerðu fyrirvara við þessar niðurstöður og röð kosta breytist ef einhverjir þeirra verða nýttir.
    Alþingi hefur ekki fjallað um niðurstöður rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að neinu marki og ekki var í nefndarstarfinu, hvorki í iðnaðarnefnd eða umhverfisnefnd, fjallað með fullnægjandi hætti um þann hluta rammaáætlunarinnar sem frumvarpið gerir þó ráð fyrir að lagður verði til grundvallar ákvörðunum um leyfi til rannsókna og nýtingar á einstökum kostum þar til tillögur um vernd og nýtingu liggja fyrir.
    Þegar hins vegar tillögur um vernd og nýtingu fara að skila sér úr þeim farvegi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er áskilið að Alþingi skuli fjalla um allar ákvarðanir þeirrar langtímastefnu um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls sem mótuð verður.
    Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þó að nú séu einungis liðin þrjú ár frá því að verkefnisstjórn 1. áfanga rammaáætlunar um vatnsafl og jarðvarma lauk störfum eru að mati þeirra sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar áhöld um hvort einstök svæði eða auðlindir í a- og b-hluta hennar eigi að vera til ráðstöfunar til rannsóknar og nýtingar á meðan fyrrnefnd stefnumörkun á sér stað.
    Ljóst er því að fara verður afar varlega við úthlutun leyfa á grundvelli rammaáætlunarinnar. Af fyrrgreindum ástæðum telur minni hlutinn rétt að Alþingi meti hvort einstakir kostir í a- og b-hluta áætlunarinnar verði nýttir á þeim tíma sem líður þar til áætlun um vernd og nýtingu liggur fyrir. Ekki náðist samkomulag um þessa leið í nefndinni. Meiri hlutinn vill að öllum sem hafa fengið leyfi til rannsókna með vilyrði fyrir nýtingarleyfi verði veitt nýtingarleyfi ef þeir uppfylla þau skilyrði sem nú eru sett í lögum. Í þessu felst að á þeim tíma sem líður þar til áætlun um vernd og nýtingu liggur fyrir verður hægt að fara í gríðarlega miklar virkjunarframkvæmdir án þess að stjórnvöld áskilji sér rétt til að hafa áhrif á þær. Af þessum ástæðum flytur minni hlutinn breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans sem lýtur að orðalagi 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í frumvarpinu.

Alþingi, 15. mars 2007.



Jóhann Ársælsson,


frsm.


Katrín Júlíusdóttir.


Helgi Hjörvar.