Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.

Þskj. 1242  —  85. mál.


Skýrsla

félagsmálaráðherra um kjör einstæðra og forsjárlausra
foreldra, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)    Samanburðarhæfar upplýsingar, sem óskað var eftir með beiðni (á þskj. 85) frá Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri alþingismönnum um kjör einstæðra og forsjárlausra foreldra, liggja ekki nema að óverulegu leyti fyrir í opinberum skrám eða gögnum. Þar sem fyrirsjáanlegt er að vinnslu tiltekinna upplýsinga verður ekki lokið fyrir þingfrestun er einungis hægt að svara spurningum í beiðninni að hluta. Félagsmálaráðuneytið mun samt sem áður beita sér fyrir áframhaldandi vinnslu upplýsinga í samvinnu við ýmsa aðila, svo sem Hagstofu Íslands, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Fasteignamat ríkisins, Íbúðalánasjóð og sveitarfélög.
    Félagsmálaráðuneytið hefur þann fyrirvara að heimild fáist frá Persónuvernd og öðrum hlutaðeigandi yfirvöldum til samkeyrslu margvíslegra upplýsinga sem fyrir liggja hjá framangreindum aðilum.

1.    Hver er fjöldi forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar, skipt eftir kyni, tekjum og fjölda barna?
    Þær upplýsingar sem óskað er eftir liggja ekki fyrir nema að hluta. Hvorki er merkt sérstaklega við forsjárlausa í þjóðskrá né í gögnum sem fyrir liggja hjá skattyfirvöldum. Hagstofa Íslands undirbýr nú að beiðni ráðuneytisins samkeyrslu upplýsinga í skilnaðarskrám Hagstofunnar við skattframtöl þannig að fá megi afmarkaðri mynd af tekjuskiptingu einstæðra og forsjárlausra foreldra. Þetta yrði gert þannig að tekjur yrðu bornar saman innan hvors hóps fyrir sig samkvæmt upplýsingum úr skattskýrslum, sbr. töflu 1.

Tafla 1.    Samanburður á tekjum foreldra við skilnað, annars vegar þeirra er ákveða sameiginlega forsjá með börnum og hins vegar þeirra er fara ekki með sameiginlega forsjá, miðað við barnafjölda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

* Tekjur foreldra við skilnað foreldra þar sem forræði barns er eingöngu hjá öðru foreldrinu, eftir fjölda barna. **Tekjur foreldra við skilnað foreldra sem semja um sameiginlega forsjá, eftir fjölda barna og hvort barn er með lögheimili hjá móður eða föður.
    Ef einungis er litið til upplýsinga um forsjárstöðu í kjölfar sambúðarslita eða lögskilnaðar liggja fyrir ítarlegar upplýsingar hjá Hagstofu Íslands en þar fyrir utan eru forsjárlausir foreldrar sem hafa hvorki verið í sambúð né hjúskap. Ekki liggja fyrir opinberar upplýsingar um fjöldann í síðarnefnda hópnum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands skildu foreldrar 593 barna að lögum árið 2003. Börn sambúðarfólks sem slitu samvistir á sama ári voru 680 talsins. Frá árinu 1992 hafa foreldrar hér á landi átt þess kost að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað og á allra síðustu árum hefur færst í vöxt að foreldrar nýti sér það fyrirkomulag. Framan af var algengast að móðir færi ein með forsjá en árið 1994 átti þetta við um 70,6% barna. Það ár var sameiginleg forsjá einungis valin í 22,8% tilvika. Árið 2003 átti þetta við um 61,2% barna úr lögskilnuðum. Sameiginleg forsjá er talsvert algengari eftir sambúðarslit en eftir lögskilnað. Árið 2003 var sameiginleg forsjá valin í 73,4% tilvika.
    Samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands vann að beiðni félagsmálaráðuneytisins var fyrirkomulag forsjár og búseta barna við sambúðarslit og lögskilnað árið 2005 sem hér segir:

Tafla. 2.    Forsjárfyrirkomulag og búseta barna við sambúðarslit og lögskilnað 2005, bráðabirgðatölur.
                     (Heimild: Hagstofa Íslands. Mannfjöldadeild. Hjúskapargrunnur.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                     1 Hér er um að ræða foreldra með fleiri en eitt barn þar sem forsjá er mismunandi eftir börnum, t.d. þannig að móðir fer með forsjá eins barns en faðir annars.

2.        Hve margir forsjárlausir foreldrar annars vegar og einstæðir foreldrar hins vegar, skipt eftir kyni þeirra og fjölda barna, búa
                  a.      í eigin húsnæði,
                  b.      í almennu leiguhúsnæði,
                  c.      í félagslegu leiguhúsnæði,
                  d.      í annars konar húsnæði, t.d. hjá foreldrum eða ættingjum?
        Hvað má ætla að meðalhúsnæðiskostnaður forsjárlausra foreldra og einstæðra foreldra á mánuði sé hár, annars vegar í leiguhúsnæði og hins vegar í eigin húsnæði?

    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir í opinberum gögnum. Þörf er á að vinna sérstaka rannsókn til að afla upplýsinga um í hvernig húsnæði forsjárlausir foreldrar annars vegar og einstæðir foreldar hins vegar búa. Tölfræðisvið Fasteignamats ríkisins gæti hugsanlega unnið slíkar upplýsingar með samkeyrslu við upplýsingar úr Þjóðskrá og þannig aflað gagna um eignarhald á húsnæði og tölfræði um eignastöðu einstæðra foreldra, tegund húsnæðis og fermetrastærð. Hins vegar væri unnt að samkeyra upplýsingar úr skilnaðargagnabanka Hagstofu Íslands við upplýsingar úr skattframtölum og afla með þeim hætti upplýsinga um hverjir væru skráðir fyrir húsnæði. Ekki er unnt að afla upplýsinga um húsnæðiskostnað hjá einstökum hópum nema með sérstakri rannsókn. Meðal annars hefur verið farið yfir hugsanlega gagnaöflun með sérfræðingum Íbúðalánasjóðs sem telja að ekki sé hægt að afla sérstaklega upplýsinga um húsnæði einstæðra foreldra. Þá hefur Íbúðalánasjóður hvorki sérgreindar upplýsingar varðandi forsjárlausa foreldra né þá sem eru með sameiginlega forsjá.

3.        Hve margir foreldrar, skipt eftir kyni, fjölda meðlagsgreiðslna og launatekjum
                  a.      greiða meðlag,
                  b.      fá greitt meðlag,
                  c.      bæði greiða meðlag og fá greitt meðlag?

    Af þeim atriðum sem spurt er um liggja fyrir upplýsingar frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um meðlagsgreiðendur eftir kyni og fjölda barna, sbr. töflu 3 og 4.

Tafla 3. Karlkyns meðlagsgreiðendur eftir fjölda barna sem greitt er með.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Tafla 4. Kvenkyns meðlagsgreiðendur eftir fjölda barna sem greitt er með.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir í opinberum gögnum og afla þyrfti þeirra með sérstakri rannsókn.

4.        Hvað má áætla að framfærslukostnaður forsjárlausra foreldra og einstæðra foreldra sé hár, skipt eftir barnafjölda og aldri barna?
    Í skýrslu frá 5. október 2006 um kosti og galla útgáfu neysluviðmiðs fyrir Ísland, sem unnin var af starfshópi um neysluviðmið, kemur fram yfirlit yfir vísa að neysluviðmiðum opinberra aðila á Íslandi. Slíkar viðmiðanir hafa verið unnar á vegum Hagstofu Íslands, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóðs, Tryggingastofnunar ríkisins, félagsþjónustu sveitarfélaga, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í umræddum neysluviðmiðum eru forsjárlausir foreldrar ekki tilgreindir í neinum tilvikum en hins vegar einstæðir foreldrar með og án barna. Af töflu 5 má áætla framfærslukostnað einstæðra foreldra skipt eftir barnafjölda.

Tafla 5.    Meðalútgjöld mismunandi heimilisgerða í helstu útgjaldaflokkum árin 2002 til 2004 samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands, á verðlagi júlí 2006.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í tilvitnaðri skýrslu um kosti og galla útgáfu neysluviðmiðs fyrir Ísland kemur jafnframt fram að augljóst sé að viðmið skorti fyrir aðrar heimilisgerðir en þær algengustu. Bent er á þann möguleika að endurhanna neyslukönnun Hagstofunnar þannig að nægilegur fjöldi mælinga fyrir aðrar heimilisgerðir lægju fyrir. Jafnframt væri mögulegt að byggja á tölfræðilegri greiningu til að meta áhrif mismunandi mælanlegra fjölskyldueinkenna sem hafa áhrif á útgjöld. Dæmi um aðgreiningar koma fram í töflu 6 og 7.

Tafla 6.    Dæmi um greiningu á áhrifum fjölskyldugerðar og búsetu á útgjöld
                        (matur og drykkur).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Tafla 7.     Metin matar- og drykkjarútgjöld heimilisgerða eftir fjölda
                    fullorðinna og barna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
5.        Hve mörg börn einstæðra og forsjárlausra foreldra taka þátt í tómstundastarfi utan skóla, svo sem tónlistarnámi, íþróttum o.fl., skipt eftir aldri barnanna, og hve hátt hlutfall er það af heildarfjölda þátttakenda í tómstundastarfi barna?
    Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir að Rannsóknir og greining vinni upplýsingar um hve mörg börn, skipt eftir aldursárum barna í grunnskóla*, taka þátt í tómstundum utan skóla skipt í eftirfarandi hópa:
    1.     Búa hjá báðum foreldrum,
    2.     búa hjá móður en ekki föður,
    3.     búa hjá föður en ekki móður,
    4.     búa hjá móður og sambýlismaka,
    5.     búa hjá föður og sambýlismaka,
    6.     eru á eigin vegum
    7.     eða búa við annað fyrirkomulag?
* Rannsókn og greining safnar eingöngu upplýsingum um nemendur í efstu bekkjum grunnskólans, þ.e. í 8., 9. og 10. bekk.

    Gert er ráð fyrir að greint verði hlutfall þeirra er taka þátt í tómstundastarfi utan skóla innan hvers hóps. Einnig verði greindur fjöldi innan tilgreindra hópa eftir því um hvers konar tómstundir er að ræða, einkum út frá kostnaði við tómstundirnar. Að lokum verði greint hlutfall innan hvers hóps eftir því hvort greitt er fyrir tómstundir eða ekki miðað við heildarfjölda hvers hóps.

6.        Hverjar voru meðaltekjur og hvernig var eigna- og skuldastaða einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar á árinu 2005, skipt eftir kyni þeirra og fjölda barna? Hver var tekjuþróunin miðað við aðra hópa og hvernig skiptust skuldir í meðlagsskuldir, námslán og húsnæðislán?
    Um greiningu á meðaltekjum er vísað í svar við 1. spurningu í skýrslu þessari. Varðandi eignastöðu hópsins er vísað í svar við 2. spurningu þar sem bent er á að upplýsingar um eignastöðu á íbúðarhúsnæði liggi ekki fyrir. Hugsanlegt er að tölfræðisvið Fasteignamats ríkisins gæti unnið upplýsingar um eignarhald á húsnæði og tölfræði um eignastöðu einstæðra foreldra, tegund húsnæðis og fermetrastærð.
    Íbúðalánasjóður kannar hvort unnt sé að nálgast upplýsingar um skuldastöðu einstæðra foreldra og vanskilasögu þeirra miðað við meðaltal annarra hópa í skrám sjóðsins. Talið er að slík vinna muni taka talsverðan tíma og m.a. krefjast umtalsverðrar vinnu við forritun. Íbúðalánasjóður heldur ekki utan um upplýsingar um skuldastöðu forsjárlausra foreldra.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga heldur ekki utan um upplýsingar um hjúskaparstöðu meðlagsskuldara. Mögulegt er með leyfi Persónuverndar að samkeyra upplýsingar um skuldara, sem Innheimtustofnun geymir, við upplýsingar um hjúskaparstöðu úr Þjóðskrá. Hins vegar geymir Innheimtustofnun upplýsingar um kyn skuldara. Árið 2005 voru 11.284 karlar skuldugir við sjóðinn en 520 konur.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna geymir ekki upplýsingar um hjúskaparstöðu þeirra sem lokið hafa námi og greiða afborganir af lánum frá sjóðnum. Mögulegt er með leyfi Persónuverndar að samkeyra upplýsingar um greiðendur námslána við upplýsingar úr Þjóðskrá um hjúskaparstöðu.

7.        Hverjar voru meðalráðstöfunartekjur einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra hins vegar árið 2005 samanborið við aðra þjóðfélagshópa og hvernig skiptust ráðstöfunartekjurnar?
    Vísað er í svar við 1. spurningu. Þegar greining vegna þeirrar spurningar liggur fyrir verður hægt að bera saman tekjur þeirra sem ákveða sameiginlega forsjá við skilnað og þeirra þar sem forsjá er eingöngu hjá öðru foreldri við aðra þjóðfélagshópa.

8.        Hvað má áætla að meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra séu hátt hlutfall af áætluðum framfærslukostnaði barna 0–5, 6–15 og 16–18 ára?

    Í skýrslu frá 5. október 2006 um kosti og galla útgáfu neysluviðmiðs fyrir Ísland er að finna upplýsingar um samanburð neysluviðmiða og áætlaðra ráðstöfunartekna bóta eftir fjölskyldugerð. Ekki eru gefin upp mismunandi neysluviðmið fyrir fjölskyldur eftir aldri barna.

Tafla 8.     Samanburður neysluviðmiða og áætlaðra ráðstöfunartekna bóta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Mjög mismunandi er milli aðila hver fjárhæð útgjaldaviðmiðs er eða áætluð fjárhæð til ráðstöfunar. Árið 2006 var fjárhæð meðlags vegna eins barns 17.249 kr. Meðlag fyrir tvö börn voru því 34.498 kr.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hlutfall meðlagsgreiðslna, miðað við tölur frá Tryggingastofnun ríkisins um meðlagsgreiðslur vegna eins barns árið 2006, af áðurgreindum útgjaldaviðmiðum og áætlaðri fjárhæð til ráðstöfunar.

Tafla 9.    Hlutfall meðlagsgreiðslna vegna eins barns og tveggja barna af útgjaldaviðmiðum og áætlaðri fjárhæð til ráðstöfunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


9.        Hve margir einstæðir foreldrar annars vegar og forsjárlausir hins vegar fengu árlega fjárhagsaðstoð hjá stærstu sveitarfélögunum á árunum 2000–2005 og hvernig var fjöldinn í samanburði við aðra hópa sem leitað hafa eftir fjárhagsaðstoð?
    Hagstofa Íslands hefur unnið yfirlit yfir viðtakendur fjárhagsaðstoðar í hópi einstæðra foreldra en ekki liggja fyrir hliðstæðar upplýsingar varðandi forsjárlausa foreldra. Í töflu 10 er birt yfirlit fyrir tímabilið 2000–2004.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflunni má sjá að öll árin er hlutfallslega fjölmennasti hópurinn annars vegar einstæðir barnlausir karlar og hins vegar einstæðar konur með börn.

10.    Hve margir og hve hátt hlutfall einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar, skipt eftir kyni, fá:
                  a.      barnabætur,
                  b.      húsaleigubætur,
                  c.      námslán,
                  d.      vaxtabætur,
                  e.      bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og þá hverjar?

    Ekki liggja fyrir sérgreindar upplýsingar um tekjur forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar en samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum frá árinu 2004 kemur eftirfarandi fram:

Tafla 11. Greiðslur samkvæmt skattskýrslum árið 2004.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


11.    Hverjar voru meðalskattgreiðslur forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar árlega tekjuárin 2000–2005 og hve margir þeirra voru skattlausir?
    Vísað er í svar við 1. spurningu varðandi greiningu á meðalskattgreiðslum forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar, árlega tekjuárin 2000–2005 og hve margir þeirra voru skattlausir.

12.    Hve margir foreldrar fengu mæðra- og feðralaun árin 1995 og 2005 og hvaða breytingar hafa orðið á fjárhæð greiðslna á þessu tímabili?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru mæðra- og feðralaun sem hér segir:

Greiðslur árið 1995:*
    Í desember 1995 fengu 7.789 einstæðir foreldrar mæðra- eða feðralaun.
    Bætur vegna eins barns voru 1.040 kr. á mánuði. Ársgreiðsla 12.480 kr.
    Bætur vegna tveggja barna voru 5.200 kr. á mánuði. Ársgreiðsla 62.400 kr.
    Bætur vegna þriggja barna voru 11.232 kr. á mánuði. Ársgreiðsla 134.780 kr.
* 1995 er miðað við ársgreiðslur og því er upphæð í hverjum mánuði meðaltal af ársgreiðslu. Greiðsla með einu barni var felld niður 1. janúar 1996.

Greiðslur árið 2005:
    Í desember 2005 fengu 3.491 einstæðir foreldrar mæðra- eða feðralaun.
    Bætur vegna tveggja barna voru 4.831 kr. á mánuði. Ársgreiðsla 57.972 kr.
    Bætur vegna þriggja barna voru 12.560 kr. á mánuði. Ársgreiðsla 50.720 kr.

13.    Hvernig hefur samráði stjórnvalda verið háttað við Félag einstæðra foreldra og Félag ábyrgra feðra um hagsmunamál þeirra?
    Af hálfu félagsmálaráðuneytisins hefur verið leitað umsagna Félags einstæðra foreldra m.a. við smíði frumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem síðar varð að núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá hafa ráðuneytinu borist erindi frá þessum aðilum þar sem vakin er athygli á stefnu þeirra og áherslum og hafa þau verið tekin til umfjöllunar. Félagsmálaráðuneytið telur mikilvægt að við stefnumótun á sviði barna- og fjölskyldumála verði sérstaklega horft til þessara hópa og barna sem þeim tengjast. Meðal annars hefur verið fjallað um þann möguleika að sett verði á fót nefnd til að skoða stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra en ráðuneytið telur það forgangsmál að umfjöllun um málefni fjölskyldunnar verði markvissari og skýrari innan stjórnsýslunnar en verið hefur og vinnur að breytingum þar að lútandi.
    Þá ber að geta þess að félagsmálaráðuneytið hefur átt gott samstarf við Félag ábyrgra feðra m.a. varðandi undirbúning feðraráðstefnunnar 2006 sem m.a. var styrkt af félagsmálaráðuneytinu og Jafnréttisstofu. Ráðstefnan bar yfirskriftina Feður í samfélagi nútímans og fjallaði um stöðu feðra og barna á Íslandi.

14.    Eru uppi áform af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarinnar um að bæta kjör, aðbúnað eða stöðu einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar, sem og barna þeirra?
    Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að setja á fót nýja skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu og vill með því undirstrika aukið vægi málaflokksins og skapa þessum málaflokkum skýran vettvang innan sjórnarráðsins. Markmið með stofnun skrifstofunnar eru:
     *      Sýnilegur forgangur og aukin áhersla á málaflokkinn á vettvangi ríkisstjórnarinnar og innan stjórnarráðsins.
     *      Aukin skilvirkni. Samhæfing og endurnýjun krafta, svo sem fjölskyldunefndar og fjölskylduráðs.
     *      Breytt vinnubrögð og breytt samsetning fjölskylduráðs m.a. með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. Aukin vinna í verkefnahópum með aðilum úti í samfélaginu.
     *      Aukin áhersla á forvarnir meðal barna og unglinga og jákvæða nálgun, svo sem samstarf heilsugæslu, skóla og sveitarfélaga. Horft til fyrirmyndarverkefna um land allt.
     *      Aukið samstarf við sveitarfélög og minni aðgreining á forvarnamálum og barnaverndarmálum. Aukin áhersla á starf með fjölskyldum í þeirra umhverfi.
     *      Aukin tenging við jafnréttismál og vinnumarkaðsmál í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Hugsanleg áhrif á kjarasamningagerð út frá jafnréttismálum, samhæfingu vinnu- og fjölskyldulífs og aukinni framleiðni hér á landi.
     *      Skoðaðar verði mismunandi fjölskyldugerðir og aðgerðir til að mæta mismunandi aðstæðum þeirra bæði að því er varðar fjölskyldur og börn sérstaklega.
     *      Aukin tengsl við fjölmarga sem vinna gott starf og rannsóknir hér á landi, svo sem við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Betri samhæfing og nýting þess starfs og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.
    Félagsmálaráðuneytið mun óska eftir viðræðum við önnur ráðuneyti um vistun mála á sviði barnaréttar og forsjármála til frambúðar með það að markmiði að fjallað verði um hvers kyns málefni er varða börn, ungmenni og fjölskyldur í fullu samhengi.