Þjóðskjalasafn Íslands

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 21:14:35 (6688)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Þjóðskjalasafn Íslands.

544. mál
[21:14]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn. Þó að frumvarpið fjalli fyrst og fremst um það á hvern hátt Þjóðskjalasafni Íslands verði gert kleift með skýrari hætti en nú er að setja reglur um rafræn gagna- og skjalasöfn opinberra aðila sem ber að afhenda safninu skjöl sín til varðveislu gefur þetta frumvarp óneitanlega tilefni til að ræða málið örlítið dýpra. Ekki skal sú sem hér stendur setja sig upp á móti því að Þjóðskjalasafni sé gert kleift að taka á móti rafrænum skjölum og bregðast við þeim breyttu tímum sem óneitanlega eru í veröldinni með tilkomu tölvutækni og internets, tölvupósts og allra þeirra rafrænu samskipta sem menn eiga í.

Mér þykir þetta mál engu að síður gefa tilefni til að ræða örlítið um aðstöðu eða kannski öllu heldur aðstöðuleysi Þjóðskjalasafns Íslands. Í fjárlagaumræðunni í vetur var fjallað um þörf Þjóðskjalasafns fyrir aukna fjármuni og það var sett, ef ég man rétt, 100 millj. kr. fjárveiting til Þjóðskjalasafnsins, þ.e. það var breytingin frá frumvarpinu og til samþykktra laga. Ef ég man rétt komu að auki nokkrir tugir milljóna, hvort það voru 40 milljónir, í hlut Þjóðskjalasafnsins sem aukafjárveiting á yfirstandandi ári, þó hefur það sennilega verið á árinu 2007. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hér síðar í umræðunni hvernig fjármál Þjóðskjalasafns standa og hvernig Þjóðskjalasafni verður gert kleift að bæta þannig úr húsnæðisvanda sínum að hægt sé að búa í haginn fyrir þá breyttu starfsemi sem þessu frumvarpi fylgir.

Við þekkjum það sem starfað höfum hér á Alþingi um nokkurt skeið að Þjóðskjalasafnið fór í gegnum stóra og mikla úttekt. Niðurstaða hennar var birt í nóvember 2001, fyrir það löngu að síðan hefur auðvitað ýmislegt breyst. Sú úttekt leiddi í ljós að geymslumál Þjóðskjalasafnsins væru langbrýnust af öllum geymslumálum safna hér á Íslandi. Nú settum við töluverða fjármuni í það á fjárlögum yfirstandandi árs að bæta úr geymsluvandamálum safna og það er eðlilegt að við fáum að heyra í þessari umræðu á hvern hátt Þjóðskjalasafnið fær úrbætur hvað þetta varðar. Við höfum öll orðið vitni að því hvernig Þjóðskjalasafnið hefur barist fyrir tilveru sinni, seinagangur hefur verið við endurnýjun á húsnæðinu sem Þjóðskjalasafnið er í, gömlu Mjólkursamsölunni við Laugaveg. Við höfum fengið að sjá fréttamyndir þar sem skjalabunkarnir standa í stöflum á trébrettum og bíða þess að hægt verði að sinna þeim og skrá þá. Húsið er nægilega stórt en ekki hefur verið gengið frá því með þeim hætti að það sé viðunandi eða henti þannig starfsemi Þjóðskjalasafns að hægt sé að segja að sómi sé að málum.

Hæstv. ráðherra hefur viðurkennt þennan vanda safnsins í máli sínu hingað til. Það hefur komið fram í viðtölum við hana í fjölmiðlum að gera þurfi úrbætur hvað þetta varðar og ef ég man rétt hefur hún talið brýnustu þörfina hjá Þjóðskjalasafninu af öllum söfnum á Íslandi, þ.e. varðandi lagfæringar á geymsluhúsnæði. Líka hafa birst viðtöl í fjölmiðlum við merka héraðsskjalaverði eins og Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörð í Kópavogi, sem ber hag Þjóðskjalasafnsins sem eftirlitsstofnunar með skjalavörslu fyrir brjósti. Í athyglisverðu viðtali við Hrafn í Ríkisútvarpinu 2. febrúar 2008 segir hann að óskráð skjöl séu týnd skjöl þannig að það sé veruleg þörf á því að halda áfram þeirri skráningu sem Þjóðskjalasafnið á að hafa með höndum. Hrafn gagnrýnir harðlega í þessu viðtali hvernig búið er að Þjóðskjalasafninu, segir það þjakað af mannfæð, í safninu sé mýgrútur óskráðra skjala sem enginn viti hvað hafi að geyma og enginn viti hvað er geymt og hverju fleygt í hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Rétturinn til að upplýsa um slíka hluti sé ekki nægilega virkur við þær aðstæður sem við búum við.

Ef ástandið hjá Þjóðskjalasafninu er eins og hér er lýst skiptir auðvitað verulegu máli að hæstv. ráðherra segi okkur hvernig hún sér fyrir sér þær breytingar sem eiga að gera safninu kleift að taka á móti þeim rafrænu skjalasöfnum sem þetta frumvarp mælir fyrir um. Ég sé ekki betur en að slík skjalavarsla og slík nýbreytni í starfsemi safnsins þurfi að kosta nýja aðstöðu og eins og kemur fram í umsögn frá fjármálaráðuneytinu felur hún það í sér að ráða þurfi a.m.k. fimm starfsmenn, þar af tvo sérfræðinga vegna viðtöku rafrænna skjala, tvo sérfræðinga til að fara með eftirlit og einn sérfræðing í tölvumálum. Hér er greinilega um svo breytta starfsemi að ræða að við verðum að fá að vita það, þingheimur, á hvern hátt við megum gera ráð fyrir því að Þjóðskjalasafnið fái úrlausn húsnæðismála sinna og sinnar bættu aðstöðu.

Eru t.d. uppi áform um að flytja Þjóðskjalasafnið í annað og hentugra húsnæði? Það hafa komið fram hugmyndir um það sem vert er að skoða í þessu sambandi og ég hefði viljað að hæstv. ráðherra svaraði einhverju um það hér enda þekkir hún þá umræðu eflaust manna best af þeim sem í þessum sal eru. Þó að hæstv. ráðherra sé ekki akkúrat í augnablikinu í salnum treysti ég og geri fastlega ráð fyrir því að hún hlýði á mál mitt og komi síðar í umræðunni með svör við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt hér fram.