Þjóðskjalasafn Íslands

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 21:27:49 (6694)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Þjóðskjalasafn Íslands.

544. mál
[21:27]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að ég hafi upplifað eitthvað í dag sem ég hélt að ég mundi aldrei upplifa í þingsölum. Í mínum huga hefur dagskráin ekki riðlast, hún hefur algjörlega farið úr böndunum.

Ég vil benda á það að þegar ég hafði hafið ræðu mína um opinbera háskóla bað ég um að hæstv. menntamálaráðherra yrði í salnum vegna þess að hún var þegar farin vegna anna. Mér var þá tjáð af forseta Alþingis að umræðan mundi hefjast aftur kl. 17.30. Það varð ekki vegna þess að þá höfðu málefni félagsmálaráðherra verið tekin fyrir og mér var tjáð að umræðan mundi aftur hefjast um sjöleytið, eitthvað svoleiðis. Síðan kom reyndar kvöldverðarhlé og mér var sagt að ég mundi þá taka til máls um leið og umræða um félagsmálin yrði búin. Rétt áður en sú umræða átti að hefjast var mér tilkynnt að það væri enn einu sinni búið að snúa þessu við og málefni LÍN yrðu tekin á eftir. (Forseti hringir.) Ég bar þá örlitlu von í brjósti að ég gæti tekið til máls en þá þurfti hæstv. menntamálaráðherra frá að hverfa.

Þá spyr maður sig: (Forseti hringir.) Hvað með þingsköp Alþingis sem áttu (Forseti hringir.) að breyta þessu ástandi?