Þjóðskjalasafn Íslands

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 21:30:40 (6696)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Þjóðskjalasafn Íslands.

544. mál
[21:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa gert athugasemdir við þingstörfin. Hæstv. forseti hefur ekki verið viðstaddur þingfundinn lungann úr deginum en þau hafa sem sagt verið eins og hér hefur verið lýst, þ.e. mál hafa verið sett inn og tekin út í miðjum klíðum allt eftir því hvernig ráðherrar hafa dottið inn og út úr þinghúsinu. Það hefur allt miðast við það á meðan almennir þingmenn sem hafa ætlað að taka þátt í umræðum hafa ekkert vitað hvenær þeir kæmust að með sínar ræður eins og hér hefur verið rakið. Þau svör sem þeir hafa fengið hafa jafnvel ekki staðist og margsinnis verið breytt frá þessu.

Í morgun fór fram atkvæðagreiðsla um það að halda þessum fundi fram á kvöld sem afbrigði frá hinum nýju þingsköpum sem forseti beitti sér fyrir. Nú er klukkan að verða hálftíu og ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvað hann hafi hugsað sér um framhald þingfundarins í dag. Á þessi ákvörðun um þingfund fram á kvöld að vera fram í nóttina líka eða hver eru áform forsetans í þessu efni? Það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því. (Forseti hringir.)