Samræmd neyðarsvörun

Þriðjudaginn 29. apríl 2008, kl. 14:34:03 (6944)


135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:34]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nefndarálit allsherjarnefndar varðandi þetta mál sem við erum að fjalla um hér, frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun. Ég ætla nú ekki að rekja nefndarálitið, það hefur hv. þm. Birgir Ármannsson gert hér fyrir hönd nefndarinnar.

Mig langar einungis að grípa aðeins niður í þær breytingar sem við gerum á 8. gr. Það er alveg ljóst að þegar nefndin fór yfir þetta mál þá kom fram talsverð óánægja hjá fjarskiptafyrirtækjunum, bæði hjá Vodafone og Símanum. Við tókum tillit til þeirrar óánægju sem fram kom. Hún fólst í því að fjarskiptafyrirtækin töldu óeðlilegt að svokallað jöfnunargjald væri nýtt til þess að greiða kostnað við uppbyggingu og rekstur vaktstöðva.

Eins og hér hefur komið fram í umræðunum fyrr í dag þá hefur verið mikið tog um þetta mál og ágreiningur milli Fjarskiptastofnunar og fjarskiptafyrirtækjanna. Við ákváðum að skera á þann hnút með því að leggja til að ríkissjóður beri þennan kostnað en ekki fjarskiptafyrirtækin og þetta eru einhverjir tugir milljóna króna sem falla þá á ríkissjóð.

Ég styð því að lögin kveði á um að ríkissjóður beri þennan kostnað þannig að þá er þessi ágreiningur væntanlega leystur. Menn geta hætt að deila og snúið sér að þeim verkefnum sem þeir eru að vinna í.

Ég vildi að það kæmi skýrt fram hér, virðulegur forseti, að ég styð þá niðurstöðu sem varð í nefndinni og skrifa undir þetta nefndarálit án fyrirvara.