Framhaldsskólar

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 17:44:13 (8113)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er að koma til atkvæða það mál af þessum fjórum sem skemmst er á veg komið. Ég tel mikinn skaða vofa yfir ef Alþingi Íslendinga fer að samþykkja ný lög um framhaldsskóla í miklum ágreiningi við skólana sjálfa. Áskoranir hafa streymt inn til okkar þingmanna um að hverfa frá því að afgreiða þetta mál, það sé vanreifað, það hafi slitnað upp úr samstarfi kennara og menntamálaráðuneytisins um þetta mál og það komi til með að valda stórslysi, ekki bara í framhaldsskólunum heldur líka í háskólunum sem eru allsendis óundirbúnir til að taka við því fólki sem kemur út úr þeim framhaldsskóla sem hér er fyrirskrifaður.

Hér er verið að opna á aukna markaðsvæðingu framhaldsskólakerfisins. Hér er verið að draga úr vægi þeirrar hugmyndafræði sem skólafólk hefur talað fyrir og sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum. Þess vegna erum við með frávísunartillögu við þetta mál.