Framhaldsskólar

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 17:50:35 (8118)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um þriðja skólafrumvarpið á þessum degi, líklega það frumvarp sem boðar hvað mestar breytingar, það frumvarp sem skapar hvað mest tækifæri, það frumvarp sem er hvað mikilvægast. Framhaldsskólinn þarf sérstaklega á því að halda að dregið verði úr miðstýringu, að skólasamfélaginu verði gefið meira frelsi þannig að skólasamfélagið geti þróað framhaldsskólastigið svipað og gerðist á þeim tíma þegar framhaldsskólakerfið sem við búum við í dag varð til. Síðan hefur verið þrengt að. Nú er mikilvægt að aftur verði losað um þannig að framhaldsskólinn geti sem allra best tekið þátt í þeirri mikilvægu þróun sem fram undan er í menntakerfi þjóðarinnar.

Þeim fullyrðingum sem síðan hafa komið fram um að verið sé að rýra stúdentsprófið með þessu frumvarpi er vísað alfarið til föðurhúsanna. Það er tekið á því mjög greinilega í nefndaráliti meiri hlutans þar sem margítrekað er að um slíkt er ekki að ræða. Hins vegar er það mikilvægast í þessu máli að framhaldsskólinn (Forseti hringir.) fær nú tækifæri til að þróast án þess að miðstýring haldi þar um alla þróun.