Framhaldsskólar

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 17:58:54 (8123)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er undarleg kokhreysti meiri hlutans hér að gera bókstaflega ekkert með þá staðreynd að það virðist eiga að fara að afgreiða þetta framhaldsskólafrumvarp í andstöðu við framhaldsskólakennara í landinu. Talsmenn meiri hlutans guma af því að þetta opni möguleika til þróunar í starfi framhaldsskólans en hvernig á að standa að þeirri þróun í andstöðu við þá sem eiga að vinna á grundvelli laganna? Er það mjög gæfulegt upplegg?

Ég minni líka á að háskólarnir í landinu hafa mikla fyrirvara á því að hér sé gengið nægilega tryggilega frá því að gæði stúdentsprófs verði tilskilin og fullnægjandi til upptöku nemenda á háskólastig. Það er langt frá því og það þýða engar ræður gagnvart þeim staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir að ekki virðist ætla að takast þannig til með afgreiðslu þessa máls eins og vera skyldi. Þess vegna væri það mikill greiði við meiri hlutann og gæfulegt fyrir hann að fallast á að fresta afgreiðslu málsins nú og vinna það betur í sumar og reyna að ná meiri sáttum um málaflokkinn.