Framhaldsskólar

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 18:20:46 (8126)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[18:20]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn erum fylgjandi því að frumvarpið gangi enn á ný til nefndar. Við greiddum ekki atkvæði með þeim ákvæðum sem hér voru borin undir atkvæði. Við teljum okkur því miður ekki geta borið ábyrgð á frumvarpinu eins og það er úr garði gert. Það er alveg sama á hvaða stigum þetta mál hefur verið, um það hefur verið mikið ósætti og er enn eins og umsagnir gefa til kynna.

Ég vil benda á að í frumvarpinu er ekki tekist á við stærstu ágreiningsmálin eins og um lengd stúdentsprófsins. Þar eru heldur ekki færð rök fyrir svokölluðum ECTS-einingum sem nú á að taka upp. Þá var heldur ekkert rætt hvort eigi ekki að auka ábyrgð stjórnenda á námsvist og skólagöngu ólögráða nemenda en þeir missa til muna réttindi sín þegar þeir koma úr grunnskóla.