135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[18:25]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég heyrði ekki forseta kalla á mig í stólinn fyrir frammíköllum hv. þingmanna. Eins og fram hefur komið greiðum við atkvæði um fjórða frumvarpið sem menntamálanefnd Alþingis hefur afgreitt frá sér, frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Og rétt eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi þá rammar þetta mál inn hin málin þrjú, þ.e. frumvarp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og sýnir mikinn metnað ríkisstjórnarinnar þegar kemur að menntamálum. Enda mælir frumvarpið fyrir um að styrkja og efla menntun þeirra sem kenna við skólana.

Þetta frumvarp helst í hendur við hin frumvörpin og má þar vísa m.a. til 11. gr. grunnskólalaganna, 8. og 13. gr. framhaldsskólalaganna og 9. gr. leikskólalaganna þannig að ef menn lesa þessi frumvörp í samhengi sjá þeir hversu samofin þau eru. (Forseti hringir.) En nefndin leggur til fjölda breytingartillagna sem ég skora á hv. þingmenn að samþykkja.