135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[18:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki staðið á okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að samþykkja þau meginprinsipp sem eru lögð fram í því frumvarpi sem hér um ræðir, þ.e. að kennaranámið sé aukið og eflt. Það hefur staðið til í mörg ár að fara þá leið og hún er auðvitað ekki óumdeild. Það kom fjöldi umsagna til menntamálanefndar sem farið var yfir en tekin var sameiginleg ákvörðun um það í menntamálanefndinni að fara þessa metnaðarfullu leið.

Hins vegar þykir okkur það ómaklegt í stjórnarandstöðunni að það virðist eiga að kosta kennara framhaldsskólastigið í heild sinni að fá þetta metnaðarfulla mál fram.