Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 14:22:44 (8310)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:22]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Rut Eysteinsdóttur og Írisi Björk Hreinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, Tryggva Axelsson og Hjördísi Björk Hjaltadóttur frá Neytendastofu, Björn Friðfinnsson, formann peningaþvættisnefndar, Eyjólf Ármannsson og Högna Einarsson frá embætti ríkislögreglustjóra, Hrund Kristinsdóttur og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði og Ómar Þór Eyjólfsson frá viðskiptaráðuneyti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til að koma til móts við athugasemdir við íslensk lög og reglur af hálfu alþjóðlega framkvæmdahópsins Financial Action Task Force on Measures against Money Laundering, sem fóstraður er af OECD.

Lagt er til í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta fari að ákvæðum laganna og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Lögð er til skráningarskylda hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Jafnframt er í frumvarpinu skilgreint hvaða starfsemi það er sem fellur undir fyrrgreind hugtök, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Þá er lagt til að Neytendastofu verði bætt inn í lögin sem eftirlitsaðila og hafi eftirlit með því að þeir sem falla undir j-lið 1. mgr. 2. gr. gildandi laga fari að ákvæðum laganna og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim. Um er að ræða eftirlit með einstaklingum eða lögaðilum sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. FATF gerði athugasemdir við að þessir aðilar væru ekki nægilega upplýstir um skyldur sínar samkvæmt lögunum og sérstaklega ekki um þá skyldu að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur léki á að rekja mætti til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Í 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna er mælt fyrir um að óheimilt sé að framkvæma viðskipti eða stofna til viðskiptasambands við aðila hafi ekki reynst mögulegt að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna um áreiðanleikakönnun. Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um 6. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til viðbót við þetta ákvæði þess efnis að hafi þegar verið stofnað til viðskiptasambands skuli binda enda á það, enda hafi ekki verið uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. 5. gr. um áreiðanleikakönnun og þannig óheimilt að framkvæma viðskipti, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Rétt er að taka fram að með þessari viðbót er ekki ætlunin að leggja auknar skyldur á fjármálafyrirtæki, t.d. í þá veru að þau þurfi að kanna viðskiptamannahóp sinn og ganga eftir því að viðskiptavinir mæti á vettvang og framvísi skilríkjum ásamt því að svara spurningum um tilgang viðskiptasambands o.fl. Enda er gert ráð fyrir því að þá aðeins skuli binda enda á viðskiptasamband að fyrirhugað sé að framkvæma viðskipti í því. Bent er á það sem fram kemur í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins en þar er vakin athygli á tengslum við nýja 4. mgr. 4. gr. samkvæmt frumvarpinu og athugasemdir við það ákvæði þess efnis að tilkynningaskyldur aðili skuli gera kröfu um að viðskiptamaður sem þegar er í viðskiptum sanni á sér deili hafi hann ekki þegar gert það.

Lagt er til að við lögin bætist ný grein þess efnis að um skilgreiningu á hugtakinu fjármögnun hryðjuverka verði ekki aðeins vísað til 100. gr. a heldur einnig til 100. gr. b og c sömu laga.

Lögð er til orðalagsbreyting á a-lið 9. gr. frumvarpsins þannig að orðalagið samrýmist því sem er í gildandi lögum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 2. gr. Við bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „skv. 100. gr. a“ í 2. tölul. kemur: skv. 100. gr. a – 100. gr. c.

2. Við 9. gr. Í stað orðanna „hann hefur verið tekinn í viðskipti“ í a-lið komi: samningssambandi hefur verið komið á.

Undir þetta rita hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Birgir Ármannsson, Árni Páll Árnason, Birkir J. Jónsson, Jón Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.

Jón Bjarnason skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.