Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 14:45:46 (8312)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:45]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við málflutning þingmannsins. Í fyrsta lagi erum við skuldbundin að breyta lögunum hvað þetta varðar. Við höfum tekið á okkur ákveðnar skuldbindingar um að berjast gegn hryðjuverkum, fjármögnun hryðjuverka og hafa hér sambærilega löggjöf gegn peningaþvætti og er annars staðar.

Í annan stað tók ég eftir því að hv. þingmaður sagðist ekki ætla að styðja 9. gr. frumvarpsins sem breytir 12. gr. laganna en svo vill að hv. þingmaður studdi 12. gr. laganna þegar þau voru sett á sínum tíma. Það eru merkileg sinnaskipti. Síðan studdi þingflokkur Vinstri grænna, að mér sýnist, allt málið í heild sinni.

Það sem við erum að gera er að breyta m.a. ákveðinni fyrirsögn, úr „einstaklinga í áhættuhópi“ yfir í „einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla“. Þetta er í samræmi við það sem Evrópusambandið notar sjálft. Við ræddum þetta talsvert ítarlega í nefndinni og var t.d. vísað í að þetta gæti átt við nígeríska stjórnmálamenn sem gerst hafa sekir um spillingu. Þetta getur líka hafa átt við aðra sem komist hafa í kast við lögin. Við fengum slóð á þá lista sem hér er verið að kalla eftir og ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur opnað slóðina á lista yfir hryðjuverkasamtök. Meðal annars gátum við fengið yfirlit yfir Al Kaída ef við smelltum á slóðina sem var send á nefndarmenn. Þar eru nafngreindir einstaklingar í Al Kaída samtökunum. Umboð hvað þetta varðar kemur frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ekki einhver lokaður klúbbur ríkra Vesturlanda. Það eru Sameinuðu þjóðirnar sem standa að þessum skilgreiningum og listum sem hér er um að ræða. Fyrst ég nefni hér Al Kaída þá er þar sérstaklega minnst á að fyrrv. utanríkisráðherra talíbanastjórnar er á þessum lista.

Annan lista er að finna þarna sem varðar Líberíu og þá ráðherra sem voru í ríkisstjórn Charles Taylor þannig að þessir listar sem liggja fyrir eru svo sem ekki meitlaðir í stein, eins og gefur að skilja, en þeir koma frá Sameinuðu þjóðunum. Svo varðandi þennan hóp, FATF-hópinn, þá er ekki rétt að segja að þar séu einhverjir bandamenn Bandaríkjamanna því að það eru margs konar ríki í þessum hópi sem við tilheyrum. Fullyrt var hér að þarna væru engin Suðurameríkuríki. Þarna má þó sjá Argentínu og Brasilíu og síðan eru Mexíkó og Suður-Afríka líka á listanum. (Forseti hringir.) Ef þingmaðurinn hefði kynnt sér málin almennilega hefði hann séð að þau samtök sem starfa með FATF eru m.a. The Asia-Pacific Group on Money Laundering, Middle East and North Africa Financial Action Task Force og The Caribbean Financial Action Task Force. Þetta er því ekki sanngjarn málflutningur af hálfu þingmannsins (Forseti hringir.) að draga upp einhverja mynd af því að við séum að ganga á mannréttindi eða setja þetta í samband við hleranir á tímum kalda stríðsins hér á landi. Þetta er tvennt ólíkt og ég geri þá kröfu að þingmaðurinn kynni sér aðeins betur þessi mál áður en hann fer að sá efasemdarfræjum í samfélaginu því að hann er gersamlega í skógarferð hvað þetta varðar.