Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 14:51:26 (8315)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:51]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að áhyggjur hv. þingmanns séu ástæðulausar. Hér er ekki verið að þrengja að mannréttindum. Hér er ekki verið að þrengja að einhverjum meintum frelsissamtökum úti í heimi. Hér er verið að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og samvinnu gegn peningaþvætti. Hér er sömuleiðis verið að tryggja að um sambærilega löggjöf sé að ræða og nágrannaþjóðir okkar hafa sem lýtur að baráttu gegn fjármunum hryðjuverka. Ég nefndi hér þrjú praktísk dæmi þar sem svona löggjöf hefur komið að gagni varðandi svindlara frá Nígeríu, varðandi Al Kaída og varðandi ráðherra og fjölskyldu fyrrverandi einræðisherra í Líberíu. Þessi umræða á sér öll stað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. í öryggisráðinu. Þar fer fram umræða um hvaða samtök eru hryðjuverkasamtök og hver ekki.

Varðandi þennan hóp, FATF-hópinn, sem við tilheyrum þá er engin ástæða til að gera hann eitthvað tortryggilegan. Þarna eru allar Norðurlandaþjóðirnar, Hollendingar, Lúxemborg og allar okkar helstu nágrannaþjóðir. Þarna eru ekki bara nefndar einhverjar fylgispakar þjóðir Bandaríkjamanna. Ég nefndi þarna í lok andsvars míns áðan að þessi hópur vinnur að sjálfsögðu með margs konar samtökum sem eru starfandi alls staðar um heiminn. Það er engin ástæða til að gera þetta eitthvað tortryggilegt enda sáu vinstri grænir ekki ástæðu til að gera það á sínum tíma þegar lögin voru sett og studdu m.a. 12. gr. sem 9. gr. náði að breyta. Ég skil því ekki á hvaða leið hv. þingmaður er. Ég skil hins vegar að hann skuli spyrja fleiri spurninga en við fengum svör við í nefndinni. Við fengum slóðir sem ættu að geta róað hv. þingmann. Hér er einfaldlega verið að taka upp sambærilegar skuldbindingar eða reglur sem við höfum nú þegar skuldbundið okkur til að gera á vettvangi Evrópuráðsins og Evrópusambandsins þannig að það ætti að veita hv. þingmanni einhverja hugarró. (Forseti hringir.) Það skiptir miklu máli að við séum samferða okkar næstu nágrannaþjóðum hvað þetta varðar og það skiptir líka miklu máli að við virðum ályktanir Sameinuðu þjóðanna og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér í því.