Skráning og mat fasteigna

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 21:08:24 (8391)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

skráning og mat fasteigna.

529. mál
[21:08]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum, frá efnahags- og skattanefnd, sem er að finna á þskj. 1097.

Á þingskjalinu kemur fram hvaða gesti nefndin fékk á sinn fund og hvaða umsagnir bárust. Einnig er lýsing á frumvarpinu.

Á fundum nefndarinnar gerði Samband íslenskra sveitarfélaga athugasemdir við nýtt heiti stofnunarinnar og að það hefði ekki verið rætt innan stjórnar. Fulltrúi Húseigendafélagsins óskaði eftir því að félagið fengi að tilnefna aðila í stjórn.

Nefndin telur að ákvæði frumvarpsins standi því ekki í vegi að ríkið greiði gjald til Fasteignaskrár Íslands fyrir almenn not af skránni en bendir á að sumar stofnanir ríkisins eiga lögvarinn rétt til aðgangs að skránni. Nefndin tekur einnig fram að Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fjármálafyrirtækja munu samkvæmt frumvarpinu eiga sinn fulltrúa hvort í þriggja manna stjórn stofnunarinnar. Stjórninni er m.a. ætlað að gera tillögu að gjaldskrá stofnunarinnar til ráðherra. Nefndin gerir ekki athugasemd við val á nýju heiti stofnunarinnar og telur að það lýsi ágætlega meginþáttum í starfsemi hennar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem er að finna á þingskjalinu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifar undir álitið með fyrirvara.

Hv. þingmenn Ellert B. Schram, Lúðvík Bergvinsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson, Magnús Stefánsson, og Ragnheiður E. Árnadóttir.