stjórn fiskveiða.
Herra forseti. Já, ég sé ekki ástæðu til að fella niður veiðigjald upp á þau býti sem við erum að tala um, þeir þurfa að borga raunverulega fyrir þessar veiðiheimildir 1–2 kr. en geta leigt á 220–240. Það er óeðlilegt. Og það væri ekki óeðlilegt að gera einhverjar kröfur á fyrirtækin til þess að þau fengju niðurfellingu á veiðigjaldi, m.a. eins og það að vinna aflann í landi og ýmislegt annað sem hægt væri að hugsa sér. Það er auðvitað önnur útfærsla en það er ekki eðlilegt að gera þetta svona. Ég get bara sagt enn og aftur að ég er á móti því að fella niður þetta veiðileyfagjald án þess að það séu þá einhver skilyrði fyrir því með hvaða hætti aflinn er unninn, hvað er gert við hann og annað þess háttar. Ef þetta á að vera einhvers konar partur af mótvægisaðgerðunum sem eru skrautlegar kemur þetta ekki til þeirra sem þurfa á því að halda eins og svo margt í þeim aðgerðum sem því miður eru fyrir allt aðra en þá sem á því þurfa að halda.
Við erum búin að tala dálítið um þessar mótvægisaðgerðir síðustu daga í þinginu, afleiðingar af þeim og fyrir hverja þær eru þannig að ég þarf ekki að endurtaka það. Ég get hins vegar sagt enn og aftur að ég er ósáttur við þessa aðferðafræði og tel að miklu nær hefði verið að brjóta þetta kerfi upp.