Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 17:50:58 (449)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:50]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur oft farið yfir að hann telji forsendur veiðigjaldsins ekki eins og þær ættu að vera og vísar sérstaklega til þess að það er að hluta til reiknað út frá framlegð sem nær bara til aprílloka á yfirstandandi almanaksári. En það sem hv. þingmaður lagði mesta áherslu á í lokin var að þetta veiðigjald væri mjög íþyngjandi fyrir útgerðirnar. Einmitt þess vegna er verið að flytja þetta frumvarp. Það er verið að reyna að létta á gjöldum af útgerðinni til að auðvelda henni að komast í gegnum þennan skafl, sem sannarlega er fram undan, vegna minni aflaheimilda.

Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann væri í raun að hvetja til að ganga lengra í þessum efnum. Eins og hv. þingmaður nefndi var framlegðin góð á árinu 2006 og það náði fram á árið 2007. Síðan hefur hún versnað, bæði vegna minni aflaheimilda í þorski og eins vitum við að gengi krónunnar hefur verið að styrkjast. Var hv. þingmaður að hvetja til þess að við gengjum lengra, að við tækjum meira tillit til þess að aðstæðurnar yrðu erfiðari á komandi mánuðum? Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi. Hann talaði um að veiðigjaldið væri íþyngjandi og vísar til þess að á kíló hafi það hækkað talsvert, sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni. En ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann væri að hvetja til að við lækkuðum þetta gjald enn frekar.

Út af fyrir sig kæmi það sjónarmið mér ekki á óvart. Ég man ekki betur en við hv. þingmaður höfum verið samstiga þegar Alþingi ákvað breytingar á þessu gjaldi hvað varðar rækjuna. Þá vorum við sammála um að fella þetta gjald algjörlega niður. Ég held að það hafi verið skynsamlegt. Ég man ekki betur en við höfum verið samstiga um það. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmaður hafi í raun hvatt okkur til að ganga lengra heldur en gert er með lækkun veiðigjaldsins.