stjórn fiskveiða.
Hæstv. forseti. Það er rétt munað hjá hæstv. ráðherra að ég studdi að fella niður veiðigjaldið af rækjukvótanum á sínum tíma enda sá ég ekki grundvöllinn fyrir því að íþyngja mönnum með veiðigjaldi af veiðiheimildum sem þeir gátu ekki nýtt vegna þess að aðstæður buðu ekki upp á það, hvorki út frá sjónarhóli útgerðarinnar né afkomunnar í rækjuvinnslunni.
Ég hvet ráðherrann fyrst og fremst til að fækka kvótabundnum fisktegundum. Ég tel að honum beri að afnema kvótaúthlutun á rækju. Fyrir því eru engar forsendur og það er ekki stutt nokkrum rökum að hefta skuli atvinnufrelsi manna við rækjuveiðar meðan ekki veiðist upp í aflaheimildir.
Ég vil líka vekja athygli á því, hæstv. ráðherra, að við veiddum heldur ekki upp í aflaheimildir okkar á ýsu á síðasta ári og munum kannski ekki gera það á þessu fiskveiðiári. Ég hef lengi verið talsmaður þess að menn reyndu að einfalda þetta kerfi með því að hafa færri fisktegundir kvótabundnar. Við höfum margoft talað fyrir því svo það kemur örugglega hæstv. ráðherra ekki á óvart.
Ég er talsmaður þess að færri fisktegundir verði kvótabundnar en verið hafa og menn reyni eftir fremsta megni að fara að vinna sig út úr þessu kerfi en ekki á bólakaf í það.