Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 17:56:44 (452)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að það sé alveg ljóst þá er ég ekki að leggjast gegn því að aflétta veiðigjaldi af útgerðinni sem nemur þessum 275 millj. kr. vegna niðurskurðar þorskveiða. Ég held að það geti komið sjávarútvegsbyggðunum til góða.

Ég hvet hins vegar hæstv. ráðherra til að horfa í fleiri áttir varðandi hagsmuni útgerða og sjómanna landsbyggðarinnar, sjávarbyggðanna, fiskvinnslufólksins, en bara til þessa þáttar, sem snýr reyndar beint að útgerðinni.

Eins og við höfum oft bent á þarf ýmislegt að koma til — það var rætt sérstaklega í dag í umræðu um kjör sjómanna — og þarf að horfa sérstaklega til þess hvernig sjómenn fara út úr þessu, sérstaklega sá floti sem er háður botnfisksveiðum. Það liggur fyrir að sá floti sem er háður botnfisksveiðunum, hefur stundað botnfisksveiðarnar, verður fyrir sérstaklega mikilli tekjuskerðingu vegna þessara aðgerða. Þetta bitnar með allt öðrum hætti á uppsjávarveiðiskipunum.