stjórn fiskveiða.
Herra forseti. Ég ætla að víkja sérstaklega að því atriði í frumvarpinu sem hér er til umræðu og lýtur að veiðigjaldi á veiðiheimildir í þorskafla.
Það er því miður held ég varlega sagt að skuggi vofir yfir mörgum sjávarbyggðum landsins á næstu missirum í kjölfar þeirra skerðinga sem hafa verið ákveðnar af hálfu stjórnvalda í þorskafla. Það bætir um betur þegar það er ljóst að með 130 þús. tonna aflamarki í þorski er ekki hægt að veiða aðrar tegundir sem eru þó áætlaðar og fram boðnar, svo sem ýsu. Það er ekki hægt, það vita allir. Það vita allir hvað þarf að gera til að það megi ganga fram og þá var betur heima setið en af stað farið.
Þessi skerðing hefur gríðarleg áhrif í flestum sjávarbyggðum landsins. Gott dæmi er Grindavík og Suðurnes þar sem skerðingin er 9 þús. tonn. Það er ámóta skerðing og allur afli sem er veiddur í þorski á Vestfjörðum þannig að höggið er feiknarlega mikið. Það er oft talað um að þessi vandi liggi ekki annars staðar og það er því miður lenska í því sambandi hjá mörgum í þjóðfélagi okkar að þessi vandi liggi aðeins á Vestfjörðum. Það er bara ekki þannig og það ætti að vera markmið sjávarútvegsráðherra að kynna það hvað þessi vandi liggur víða. Það vantar að hæstv. sjávarútvegsráðherra geri það. Þessi vandi er um allt land og alveg sama hvort við tökum dæmi eins og Grindavík með 6 þús. tonna skerðingu, Vestmannaeyjar með 4 þús. tonna skerðingu, Hornafjörð með yfir 2 þús. tonn eða Garðinn með 1.500, þetta mun þýða verulega fækkun starfa í þessum sjávarplássum og þess vegna skýtur skökku við að ganga ekki til fullnustu í það að taka veiðileyfagjaldið úr sambandi í öllum tegundum. Það eru engin rök fyrir veiðileyfagjaldinu, ekki nokkur. Veiðileyfagjaldið er í raun geðþóttaákvörðun, pólitísk ákvörðun sem er aldrei byggð á neinum rökum vegna þess að það er ekkert samræmi í veiðileyfagjaldinu gagnvart annarri skattheimtu í landinu. Því hefur aldrei verið fylgt eftir að skilgreina auðlindaskatt á aðrar greinar í landinu og þess vegna á að taka þetta úr sambandi. Eða er einhver sérstakur skattur á þá sem véla um verðbréf og eru í bankastarfsemi á Íslandi? Nei, þar er enginn skattur. Þeir hafa meira að segja aðstöðu til að leggja sjálfir á skatt sem ekkert er gert við og hirða hann eins og þeim sýnist. Þetta eru hlutir sem við verðum að horfast í augu við því að þarna gætir ójöfnuðar og ósamræmis.
Það er áætlað að veiðileyfagjaldið á næsta ári verði 1.100 millj. Þorskurinn er metinn 275 millj., þ.e. til fjórðungs. Skerðing með þessu móti sem gerð er — það er ekki að mínu mati bara skerðing í þorskinum, það er líka skerðing í tekjumöguleikum útgerðanna vegna þess að þær eru á röngum forsendum — þýðir að fyrirtæki víða um land, sjávarútvegsfyrirtækin, útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki þar sem þetta spinnst saman hafa mun lakari stöðu til að bregðast við þessari gríðarlegu skerðingu og verða mun verr í stakk búin til þess að tryggja fólkinu í þessum byggðarlögum meiri vinnu og frambærileg kjör. Þessar aðgerðir eru alveg þvert á það sem annars er vilji ríkisstjórnarinnar, að koma til móts við byggðarlögin í þessum efnum. Því miður er ekki hægt að kalla þessa uppsetningu eins og hún er annað en hálfkák. Það er ekki vel spúlað dekk fram undan í þessum efnum með þessari aðgerð.
Að mínu mati er full ástæða til þess að fella veiðileyfagjaldið niður meðan þessi óáran gengur yfir, vonandi, í þrjú ár og taka þá nýja ákvörðun í málinu. Ég stefni að því að flytja við 2. umr. breytingartillögu er þetta varðar.
Það segir nokkuð mikið þegar vitnað er einfaldlega í orð þeirra sem við vandann eiga að glíma. Tökum dæmi af bréfi og ályktun Útvegsmannafélags Suðurnesja, með leyfi forseta:
„Þessa dagana eru útvegsmenn um allt land að leita leiða til þess að mæta niðurskurði á aflamarki í þorski. Ómögulegt verður að mæta 33% samdrætti veiðiheimilda án þess að það komi niður á starfsemi fyrirtækjanna í greininni og þeim sem hafa viðurværi sitt af því að þjónusta þá sem starfa í sjávarútvegi, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga. Það er allur pakkinn undir. Vegna niðurskurðarins mun þorskafli á Suðurnesjum verða tæplega 9 þúsund tonnum minni á yfirstandandi fiskveiðiári, en í engu einu sveitarfélagi er niðurskurðurinn jafnmikill og í Grindavík þar sem hann nemur um 6 þúsund tonnum. Til viðbótar þeirri tímabundnu skerðingu sem útvegsmenn á Suðurnesjum standa nú frammi fyrir hafa margir þeirra þegar verið skertir umtalsvert og varanlega með tilfærslu aflaheimilda í nafni byggðastefnu. En þær aðgerðir hafa komið sérlega illa niður á útgerðarfyrirtækjum á Suðurnesjum.
Útgerðarmenn hafa ekki farið fram á sérstakan stuðning frá stjórnvöldum vegna þessarar skerðingar. Útvegsmannafélag Suðurnesja skorar aftur á móti á alþingismenn í kjördæminu að þeir beiti sér fyrir almennum aðgerðum og skapi greininni þannig aðstæður sem geri henni kleift að dafna þrátt fyrir umrædda skerðingu.
Nokkur atriði eru mikilvægust og það eru einmitt atriðin sem víða brenna á, að mismunun í sjávarútvegi verði hætt, línumismununin verði felld niður strax og slægingarstuðlar leiðréttir. Byggðakvóti verði felldur niður í áföngum á þremur árum og þar sem tekið verður af aflamarki vegna aflabrests og vegna byggðakvóta verði þá tekið af öllum útgerðum með aflahlutdeild. Flestar þessar aðgerðir eiga það sammerkt að með þeim er verið að færa veiðiheimildir frá einni sjávarbyggð til annarrar eða jafnvel milli útgerðaraðila innan sömu byggðar.
Annað atriði er að stjórnvöld afnemi sérstakar álögur og gjöld sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að axla umfram aðra atvinnuvegi í landinu,“ — ég endurtek, umfram aðra atvinnuvegi í landinu — „og er þar sérstaklega nefnt hið svokallaða veiðigjald sem í rauninni er skattur er leggst þyngst á landsbyggðina því þar er stærstur hluti þeirra fyrirtækja sem eru í sjávarútvegi og hafa sérstöðu miðað við Reykjavík í þeim efnum.“
Aðeins skerðingin á Suðurnesjum og í Suðurkjördæmi þýðir það sama og að höfuðborgarsvæðið yrði fyrir um 300 millj. kr. skerðingu. Það eru nærri 2 millj. á mann og þess vegna verða menn að horfast í augu við þetta með þeim hætti. Það mundi eitthvað hvína í ef þessi skerðing ætti að ganga yfir okkar ágæta höfuðborgarsvæði sem hefur forskot í svo mörgu í þjóðfélaginu, í félagslegu tilliti, menningarlegu, heilbrigðisgæslu og ýmsum öðrum þáttum.
Hitt fólkið í landinu — ég segi hitt fólkið sem er úti á landsbyggðinni — á að njóta þess að það er þar að afla verðmæta sem hafa safnast saman jafnt og þétt, hægt og sígandi yfir langt tímabil. Þetta er það sem blasir við og skiptir miklu máli að menn loki ekki augunum fyrir því.
Það er lykilatriði í þeim aðgerðum sem nú hafa verið ákveðnar og vonandi ganga ekki fram jafnlengi og stefnt hefur verið að að þeir sem verða fyrir skerðingunum njóti þá réttarins á ný þegar úr raknar.
Grímsey er ágætt dæmi. (Gripið fram í.) Grímseyingar urðu fyrir missi mikils kvóta fyrir nokkrum missirum og þeir brugðust við eins og þeirra var von og vísa með miklu áræði og mikilli djörfung. Þeir keyptu kvóta fyrir 800 millj. kr. Við skerðinguna fuku 730 millj. til baka. Við því var ekkert að gera, en sú er staðreyndin. Það er þetta sem sjávarútvegsbyggðirnar glíma við alls staðar í kringum land, gríðarlegt áfall í annars öflugu og sterku góðæri íslensku þjóðarinnar þar sem margt mætti kalla fordekrun. Ég held að menn hafi því miður ekki einbeitt sér að því að horfa fram á veginn í þessu, til nánustu framtíðar, vegna þess að ef þessir hlutir ganga eftir sem ætla má mun höggið koma í mars/apríl. Höggið mun koma þegar kvóti bátaflotans verður uppurinn og flotinn bundinn við bryggjur allvíða þótt menn muni ugglaust reyna að spila úr þessu eins og hægt er. Það er líka ljóst að með þessari þrengingu mun þrengja enn meira að þeim sem þó hafa gert út og skilað atvinnu og möguleikum víða um land með svokölluðum leigukvóta. Þeim mun ganga verr að sinna þeim þætti sem þeir hafa þó gert og hefur skipt verulega miklu máli í mörgum byggðum. Þetta mun koma sérstaklega illa við ýmsar verstöðvar. Þetta mun til að mynda koma mjög illa við Þorlákshöfn og mætti nefna marga fleiri staði.
Það er kannski ekki ástæða til þess í umræðunni núna að fjalla mikið um hvað það var skynsamlegt að fara niður í 130 þús. tonnin. Ég mótmæli því ekki að það halli á en það vantar gjörsamlega í þessar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar samstarf við aðra vísindamenn utan stofnunarinnar og ekki síst samstarf við starfandi sjómenn víða um land.
Ég hef reyndar í mörg ár haldið því fram að það væri rík ástæða til þess að kalla til reyndustu skipstjórnarmenn í ýmsum greinum víða um land og fá þá til að leggja sína fiskifræði á borðið. Skipstjórnarmenn á Íslandi í dag eru ekki bara veiðimenn, þeir eru líka fiskifræðingar vegna þess mikla og vandaða tækjabúnaðar sem er í svo mörgum íslenskum fiskiskipum. Auðvitað á að nota þessa þekkingu. Auðvitað á að kalla þá til. Þeir eru kannski bestu gæslumennirnir á þeim miðum sem þeir þurfa síðan að sækja og afla sér lífsviðurværis á. Þeir þekkja túnið í hafinu eins og bóndinn þekkir túnið sitt á landinu. Bóndinn kann best að rækta sitt tún og ugglaust eru skipstjórnarmennirnir sjálfir best færir um að rækta bleyðurnar í hafinu.
Þetta er erfitt mál. Það skiptir miklu að menn hafi trú á hlutunum þegar þeir ganga fram. Því miður eru mjög margir sem hafa ekki trú á rannsóknarlíkani Hafrannsóknastofnunar. Ég er einn af þeim. Ég tel það götótta flík sem þarf að bæta á margan hátt og ég hefði talið miklu hyggilegra að halda sjó í kannski 2–3 ár, fara að tillögu útvegsmanna um að aflinn yrði 160 þús. tonn en ekki 130 þús. og byggja upp nýjan rannsóknarferil, styðjast við þann gamla en byggja upp nýjan með nýjum mönnum, nýrri aðkomu og taka til greina ýmsa gagnrýni sem hefur legið í loftinu um árabil, svo sem slóðir togararallsins sem mjög mikið hefur verið gagnrýnt. — Það væri æskilegt að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar mundu fylgjast með þessari umræðu því hún er í fullri alvöru. (Gripið fram í.) Fullri alvöru.
Auðvitað efast ég ekki um að hæstv. sjávarútvegsráðherra færir hlutina fram best og öruggast að mati sínu. Ég þekki hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki að neinu öðru, en það er skoðanaágreiningur um þessi mál og þetta er svo alvarlegt mál fyrir byggðirnar í landinu, það eru svo miklir hagsmunaárekstrar innifaldir í umfjöllun þessa máls og ákvörðunum að það hlýtur að vera erfitt að ná alhliða samstöðu um það. Það er því óskandi að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki upp þann þráð að skipuleggja markvisst ný vinnubrögð í rannsóknastefnu, ný vinnubrögð hjá Hafrannsóknastofnun sem ná lengra en gerst hefur í þessum þrönga ramma, þessum fámenna hópi, ekki segja sérfræðinga heldur manna sem vinna hjá Hafrannsóknastofnun. Það eru víðar sérfræðingar en í stofnunum. (Gripið fram í: Á þingi.) Það er ekki alltaf nóg að kunna að babla á bók til að hafa reynslu og þekkingu á hlutunum. Reynslan er drjúg og við eigum að nota hana eins og við getum.
Það er grundvallaratriði til að ná sátt um þessi mál í framtíðinni að kalla til vísindamenn frá öðrum stofnunum og, ég ítreka, skipstjórnarmenn víða um land, leita álits þeirra og láta þá leggja á ráðin. Það er mikilvægast að við getum siglt þessu áfram, komist út úr þessu dæmi með eins mikilli sátt og hægt er.