Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 18:18:36 (454)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:18]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að benda hv. þingmanni á að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að efla eigi starf Hafrannsóknastofnunar og þar með hafrannsóknir. Ég sé ekki að neitt bendi til þess að við getum ekki treyst því og bind miklar vonir við það.

Það er alveg ljóst að Hafró hefur sætt mikilli gagnrýni og það er ekkert óeðlilegt þegar jafnmikil hagsmunamál eiga í hlut. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að skera niður þessar veiðar vegna fiskverndarsjónarmiða sem lögð hafa verið til. En jafnframt leggur hann til að farið verði að vinna frekar í hafrannsóknum, m.a. í togararallinu sem endalaust er verið að tala um.

Niðurskurður á þorski bitnar gríðarlega hart á samfélaginu en margoft hefur komið fram að grípa á til svokallaðra mótvægisaðgerða. Það er gert með miklum aðgerðum, bæði í sambandi við að láta fjármagn beint út í sjávarútvegsfyrirtæki og annað.

Veiðigjaldið er ákveðin niðurstaða samkomulags. Veiðigjaldið er tákn þess að fiskstofnarnir í kringum Íslandsstrendur séu sameign íslensku þjóðarinnar. Í raun og veru má segja að þeir sem veiða fiskinn greiði veiðigjald vegna þess að þeir fái leyfi til þess frá íslensku þjóðinni. Það verður því ekki afnumið.