Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 18:22:34 (456)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:22]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú gott að það kemur hér fram að mikið verður lagt í auknar rannsóknir. Ég minni hv. þingmann á samveru okkar á Grænlandi á þingi Vestnorræna ráðsins þar sem samþykkt var ályktun um að auka samstarf í rannsóknum á milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Ráðherra hefur verið tjáð um þá tillögu og fann ég ekki betur en að hann brygðist vel við henni. Hún mun verða lögð hér fram síðar.

Ýmsu má velta fyrir sér í sambandi við alls konar gjöld og skatta. Ákveðið hefur verið að koma til móts við fiskvinnslurnar með því að nota Atvinnuleysistryggingasjóð til að fjölga greiðsludögum vegna hráefnisskorts. Ég vona að þegar hráefnisskortur er í fiskvinnslustöðvunum verði hægt að nýta krafta fólks með öðrum hætti, t.d. við viðhald og lagfæringar og annað. Í þetta verður sett stóraukið fjármagn. Þetta skiptir allt mjög miklu máli. Það sama gildir fyrir útgerðina þegar veiðileyfagjaldið er lækkað, verið er að koma til móts við útgerðina vegna niðurskurðarins.

Það er að minni hyggju alls ekki inni í myndinni að fella veiðileyfagjaldið niður. Það kemur til vegna ákveðins samkomulags og er niðurstaða mikillar vinnu. Þótt menn hafi ekki endilega verið sáttir við þá niðurstöðu var hún þó ákveðið (Forseti hringir.) samkomulag sem menn gerðu.