Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 18:48:37 (460)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:48]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins tvö, þrjú atriði sem mig langar að nefna hérna. Í fyrsta lagi að vandinn sé víðar en á Vestfjörðum. Það er öllum ljóst að vandinn er víðar en á Vestfjörðum. Í fyrra setti ég af stað vinnu af hálfu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem ég kynnti rækilega áður en hún fór af stað, m.a. af tilefni sem gefið var í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þá. Ætlunin var að reyna að átta sig á hver áhrifin yrðu af mismunandi aflareglu, m.a. á byggðirnar, á einstaka skipaflokka o.s.frv. Þessi skýrsla kom út um það leyti sem skýrsla Hafrannsóknastofnunar kom út. Þá kom glögglega fram hver áhrifin yrðu fyrir hvert sveitarfélag, annars vegar í tonnum og hins vegar hlutfallslega. Þarna kom greinilega fram hvar aflaheimildir eru mestar fyrir í þorski og því er auðvitað ljóst að þar verða menn fyrir mestu tapinu þegar við skerum niður aflann í þorskinum en við sjáum líka að hlutfallslegt vægi þorsksins í heildaraflamarki einstakra verstöðva er líka mjög mismunandi. Það verða menn að hafa í huga jafnframt því að við vitum að aðstæður til nýrrar atvinnusköpunar eru mismunandi milli svæða. Allt þetta kemur fram í þessari skýrslu.

Í öðru lagi hef ég líka sett af stað vinnu við það að varpa betra ljósi á fiskveiðiráðgjöf okkar. Það er gert ráð fyrir því í fjáraukalagafrumvarpinu sem var verið að ræða í dag og það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu líka að lagðar eru fram 50 millj. til að styrkja grundvöll togararallsins. Til þess verks verða vitaskuld kallaðir skipstjórnarmenn, sjómenn og aðrir sem þekkja þarna best til.

Í þriðja lagi er verið að efla annars konar vinnu utan Hafrannsóknastofnunar með því að setja á laggirnar samkeppnissjóð sem bara í þessari viku auglýsti eftir umsóknum til að geta kallað eftir fleiri viðhorfum en eru inni í Hafrannsóknastofnun. Og undir forustu prófessors í fiskifræði við Háskóla Íslands fer líka fram sérstök athugun þar sem (Forseti hringir.) sérfræðingar úr öðrum háskólum, öðrum rannsóknastofnunum koma að. Ég held því að segja megi með sanni að verið sé að reyna að varpa margvíslegu ljósi á þetta mikla viðfangsefni.